Að baða sig í skógi

Að baða sig í skógi

Ég er, og hef lengi verið, heilluð af trjám og skóglendi. Tré virka ákaflega róandi á mig, mér finnst gott að vera í návist þeirra. Vísindin eru að komast að áhugaverðum staðreyndum um það hvernig tré tjá sig og tala saman ýmist með efnasamböndum eða ferómónum og svo með rótarkerfinu sem sumir hafa nefnt hið eina sanna alnet. Tré vernda ung tré og þau aðstoða þá einstaklinga sem eiga undir högg að sækja eða eru á einhvern máta veikbyggðari en hin trén. Mér hefur alltaf þótt þyngra en tárum taki þegar fólk heggur niður tré sem á Íslandi eiga erfitt uppdráttar, áratuga eða árhundraða gömul tré, bara af því þau passa ekki lengur útlitslega eða skyggja á sólina. Auðvitað þurfa þau stundum að víkja þar sem mannvirki eru í húfi en alltof oft eru ástæðurnar léttvægar. Það að skyggja á sólina er reyndar eitt af því stórkostlega sem trén gera fyrir mannkynið, þau skapa einnig skjól fyrir vindi og jafnvel regni. En þau eru höggvin eins og dauðir hlutir og án umhugsunar og á heimsvísu útrýmum við heilum regnskógum sem þó eru óendanlega mikilvægir fyrir heilbrigði allra íbúa jarðkúlunnar.

Japanir og svo fleiri þjóðir stunda „skógarböð” eða „forest bathing” sem heilsubót. Þetta hljómar svolítið öfgakennt eða jafnvel fáránlegt en er það alls ekki í raun. Skógarböðin snúast um það að fara og njóta þess að vera í skógi, horfa og hlusta meðvitað og án truflana, vinda ofan af streitunni og eiga stund með náttúrunni. Þetta, sem okkur finnst kannski sjálfsagt, er líklega orðinn munaður í manngerðu umhverfi og gífurlega þéttbyggðu.

Ég hef velt þessu með trén fyrir mér undanfarið, þar sem ég eins og fleiri, hugleiði listrænt gildi tveggja pálmatrjáa í glerhólkum. „Trjáníð” hafa garðyrkjumenn kallað það og víst er tilhugsunin ógeðfelld. Að taka lifandi veru, hvaða nafni sem hún nefnist og setja í glerhólk án nokkurs samneytis við sína líka, við ferskt loft, við rótarkerfi annarra plantna, við aðrar lifandi verur.

En líklega höfum við manneskjur gert eitthvað í þessa veru frá upphafi, við höfum jú haldið bæði plöntur, dýr og jafnvel aðrar manneskjur til að þjóna okkar eigin þörfum. Að mínu mati er þetta ekkert verra „níð” en við beitum hvort annað mannfólkið.

Og hvað þá? Spurningin er þá kannski þessi; Er þetta list og mun þessi list gleðja?

Spurningin „er þetta list?” er reyndar býsna snúin og líklega eru svörin jafn mörg og svarendur. Maður hefur heyrt þessa spurningu hnussaða með fyrirlitningu og maður hefur líka heyrt spurt í einlægni og af heiðarleika, því án þessarar spurningar væri líklega engin list til. Ég er ekki lærð í list (fremur en líffræði) en mér sýnist að tré í glerhólki hafi a.m.k. það listræna gildi að eitthvað hafi verið sett í nýtt samhengi og veki upp nýja hugsun og ef til vill víðara sjónarhorn en áður.

Gleður þá þessi list? Því mun auðvitað sérhver sá sem horfir á pálmatrén, svara. Það sem mér finnst kannski umhugsunarvert er að fyrir þessa peninga væri hægt að fegra græn svæði í nýja hverfinu, gróðursetja tré og skapa fólki aðstöðu til að njóta náttúrunnar í alvöru og samt eiga afgang til að setja upp listaverk. Pálmarnir í glerhólkunum verða ekki í „alvöru”, það verður enginn vindur til að bæra laufin, það verður ekki hægt að heyra þyt í þessum trjám og líklega verður í mesta lagi hægt að horfa á þau deyja hægum dauðdaga. Kannski að það eigi að vera listin?

Auðvitað eru þessar hugleiðingar aðeins lítið innlegg í allar þær vangaveltur sem hafa átt sér stað um þessi mál undanfarið en það er kannski einmitt hið listræna gildi tillögunnar, þ.e. allar umræðurnar og allar pælingarnar.

Að svo mæltu hvet ég bara alla til að stunda skógarböð sem oftast og að horfa á listina í lífinu með opnum en líka gagnrýnum huga.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó