Á hverjum einasta degi eru mörg hundruð mannréttindabrot framin víðsvegar um heim. Birtingarmyndir þessara brota geta verið margvíslegar og ólíkar hverri annarri. Það breytir því þó ekki að öll þessi brot eru mannréttindabrot sem stríða gegn lögum um alþjóðleg mannréttindi. Við sem búum á Íslandi erum gríðarlega heppin þegar kemur að mannréttindum og getum því oft spurt okkur, koma mannréttindi mér við? Við í Amnesty International trúum því að mannréttindi og mannréttindabrot komi öllu fólki við, hvar svo sem þau eru framin eða hvernig þau birtast. Við trúum því að með samstöðu getum við unnið að betri heimi. Amnesty International eru alþjóðleg mannréttindasamtök sem berjast fyrir því að alþjóðlega viðurkennd mannréttindi séu virt og að allir njóti verndar þeirra. Við erum rúmlega þrjár milljónir, venjulegt fólk um allan heim sem berst fyrir þeim sem ekki fá notið réttlætis og frelsis. Við berjumst fyrir margskonar mannréttindum og grípum meðal annars til aðgerða til að verja réttindi og mannhelgi þeirra sem fastir eru í viðjum fátæktar, afnámi dauðarefsingunar, fyrir verndun gegn pyndingum, fyrir lausn samviskufanga, fyrir réttindum flóttafólks og vopnaviðskiptum á alþjóðavettvangi.
Velkomin
Þessa dagana birtast okkur fréttir frá stríðssvæðum heimsins og af flóttamönnum sem neyðst hafa til að flýja heimili sín og land sitt vegna þeirra átaka sem geysa í heimalandinu. Þessar fréttir eru orðnar að daglegu brauði og mörg okkar eru jafnvel farin að líta framhjá fréttum sem þessum. Vissir þú að aldrei hafa jafn margir flóttamenn verið í heiminum og í dag? Samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna voru 65,3 milljónir manna á flótta í lok árs 2015. Þetta jafngildir einum af hverjum 113 manns í heiminum. Flestir þessara flóttamanna koma frá Sýrlandi, Afganistan og Sómalíu en talið er að 24 einstaklingar þurfi að flýja heimkynni sín á hverri mínútu og að helmingur þeirra séu börn undir 18 ára aldri. Íslandsdeild Amnesty International hefur ýtt úr vör herferðinni “Velkomin” og samkvæmt könnun sem samtökin létu gera myndu 85,5% Íslendinga taka fagnandi á móti flóttamönnum. Stór meirihluti flóttamanna eða 86% eru í ríkjum eins og Tyrklandi, Pakistan og Líbanon þar sem efnahagur er bágur. Evrópa tók einungis á móti 6% flóttamanna árið 2015 en teljum við að heimsálfan okkar geti gert vel betur en það. Íslandsdeild Amnesty International hefur gripið til margra aðgerða í tengslum við flóttamannaherferðina Velkomin, meðal annars hafa verið gefin út myndbönd og fólk verið frætt um stöðu flóttafólks. Við teljum að öll ríki geti aðstoðað við að veita flóttafólki vernd m.a. með því að veita því endurbúsetu og einnig eru til fleiri öruggar og lagalegar leiðir eins og fjölskyldusameining sem og veiting námsmannaáritunar. Ríkisstjórnir geta einnig stuðst við aðrar leiðir til verndar eins og í neyðartilfellum sem gildir til dæmis um ástandið í Sýrlandi. Flóttamannavandinn krefst sterkrar forystu og alþjóðlegs samstarfs í þeim tilgangi að finna sameiginlega lausn sem tryggir raunverulega vernd fyrir flóttafólk.
Ungliðahreyfing Amnesty International á Norðurlandi.
Íslandsdeild Amnesty International hefur verið með starfrækta ungliðahreyfingu frá því árið 2012 og í gegnum hana hafa þúsundir ungmenna lagt sitt á vogarskálar mannréttindabaráttunnar. Samtökin hafa verið að færa starfsemi sína út á landsbyggðina með því að stofna ungliðaráð í flestum landshlutunum .Ungliðahreyfing Amnesty International á Norðurlandi hóf starfsemi sína á þessu ári og stefna okkar er að mynda sterkan hóp ungmenna sem öll hafa það sameiginlegt að hafa áhuga á mannréttindum og vilja leggja sitt af mörkum til að aðstoða samtökin í baráttunni gegn mannréttindabrotum. Ungliðahreyfingin í Reykjavík hefur staðið sig með prýði og staðið fyrir fjölmörgum viðburðum og aðgerðum tengdum Amnesty International. Okkar markmið er að gera slíkt hið sama hér á Norðurlandi. Við stefnum á að halda opinn kynningarfund þann 10. mars á Akureyri og er öllum ungmennum sem hafa áhuga á mannréttindastarfi velkomið að mæta. Staðsetningin verður auglýst á Facebook síðu okkur undir nafninu Ungliðahreyfing Amnesty International. Í kjölfar kynningarfundarins mun ungliðahreyfingin funda ásamt aðgerðarstjóra Íslandsdeildarinnar og í sameiningu skipuleggja framhaldið. Ungliðahreyfing Amnesty á Norðurlandi skipar fulltrúa af öllu Norðurlandinu og gegnir Dalvíkingur formennsku. Ungliðahreyfingin er opin öllum þeim sem hafa áhuga og tökum við fagnandi á móti nýjum meðlimum.
Sunneva Halldórsdóttir, Formaður ungliðahreyfingar Amnesty International á Norðurlandi
UMMÆLI