Abba labba lá og önnur kvæðiInga Dagný Eydal skrifar:

Abba labba lá og önnur kvæði

Þegar ég var lítil stelpa þá fann ég lúið og marglesið eintak af Svörtum fjöðrum Davíðs Stefánssonar sem var fyrsta bók skáldsins unga, gefin út 1919 og fékk eins og flestir þekkja, gríðarlega góðar móttökur. Ég sjálf, varla meira en tólf ára gömul, heillaðist gjörsamlega og las þessa litlu bók aftur og aftur.

Mér fundust þessi ljóð heillandi og einhvernvegin svo nálægt mér. Mér fannst ég raunverulega getað lifað mig inn í þau eins og skáldsögu, upplifað tilfinningarnar, séð landslagið og fundið ilminn. Eina ljóðið sem ég ekki gat tengt við og fannst eiginlega arfavitlaust að það skyldi vera haft með öllum dásamlegu ljóðunum var „Abba labba lá”. Ég botnaði ekkert í því hvað Davíð var að fara þar og margir hafa reyndar síðan fundið mismunandi boðskap í ljóðinu því.

Síðan hef ég þó verið mikill aðdáandi Davíðs og flest af hans kveðskap finnst mér vera merkilegt og magnað. Því skil ég vel hvernig æska landsins brást við þessari fyrstu bók hans, það virðist hafa verið álíka bylting og ef Bítlarnir frá Liverpool hefðu birst í Austurstræti fyrst allra staða.

Fyrir mörgum árum síðan vann ég einn vetur á deild fyrir heilabilaða, aldraða einstaklinga á hjúkrunarheimili í Reykjavík. Ég fékk þar frábært tækifæri til að vinna skemmtilega þróunarvinnu í því að finna hæfilegar tómstundir fyrir íbúa deildarinnar. Ég starfaði með frábærum þroskaþjálfa og við höfðum báðar mikinn áhuga á að finna tómstundir sem sýndu íbúunum virðingu sem fullorðnum einstaklingum en væru að veita ánægju þrátt fyrir skerta vitsmunalega færni. Við brölluðum ýmislegt þennan vetur, lærðum öll ýmislegt og skemmtum okkur trúi ég öll vel. Við prófuðum nýjar matartegundir, horfðum á dans og söngvamyndir, sungum og spiluðum, stofnuðum jazzklúbb og ekki hvað síst, stofnuðum ljóðaklúbb. Ekki höfðu allir trú á okkur og ljóðaklúbburinn var af mörgum talinn vonlaus. Hvernig átti fólk sem mundi ekki eftir sínum nánustu að geta hlustað á eða farið með ljóð?

Ljóðaklúbburinn var þó árangursríkur, fólk naut þess að hlusta og sérstaklega ef ljóðin voru kunnugleg og höfðu hrynjandi og rím.

Svo kom að Davíðs þætti Stefánssonar. Skemmst er frá því að segja að þá fór hópurinn og sérstaklega konurnar á flug. Þær lyftust í sætunum,, brostu allan hringinn og það kom ljómi í augun. Sumar fóru auðveldlega með kvæðin hans, sérstaklega þau úr Svörtum fjöðrum og jafnvel þótt þær væru eiginlega hættar að tala annars. Ein þessara kvenna hafði unnið í bókabúð í Reykjavík þegar bókin kom út og hún hafði meira að segja hitt skáldið. Hún varð dreymin þegar hún sagði frá þeim fundi og greinilegt að það lifði í minningunni sem eitthvað stórkostlegt.

Á komandi ljóðaklúbbsfundum þýddi lítið að fjalla um önnur skáld en Davíð þannig að við gáfumst bara upp og héldum áfram að rifja upp ljóðin hans, lesa þau og syngja, og við heyrðum söguna af því þegar Davíð kom í bókabúðina í Reykjavík í nokkur skipti í viðbót.

Það var göldrótt að upplifa tilfinningar þessar kynslóðar til skáldsins og upplifun fyrir mig og aðra sem urðu vitni að því . Og nú eru liðin hundrað ár frá fyrstu útgáfu Svartra fjaðra og við erum enn að minnast snilldarinnar. Ég skora á rappara landsins að búa til nýja vakningu með ljóðunum hans Davíðs á meðal ungra dagsins í dag og rappa ljóðin hans, þau eru áreiðanlega frábærlega til þess fallin.

Svo treysti ég því að einhver setji Svartar fjaðrir í mín heyrnartól í ellinni takk.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó