NTC

,,Svakalega ánægjulegt að fá HM til Akureyrar“

Ísland-Rúmenía klukkan 20 í Skautahöll Akureyrar.

Heimsmeistaramót kvenna í íshokkí hefst í kvöld og verður B-riðill 2.deildar allur leikinn á Akureyri. Ísland hefur leik í kvöld klukkan 20.

Birna Baldursdóttir leikur lykilhlutverk í íslenska landsliðinu líkt og undanfarin ár og fékk Kaffið hana í ítarlegt viðtal um mótið. Smelltu hér til að sjá fyrri hluta viðtalsins.

Sjá einnig: Birna Bald: Við ætlum okkur gull

Fyrsti leikur Íslands er gegn Rúmeníu og segir Birna að íslenska liðið renni nokkuð blint í sjóinn en langt er síðan Ísland og Rúmenía mættust síðast á svellinu þar sem þær rúmensku hafa verið í 1.deild undanfarin ár.

,,Rúmenía leggst vel í mig en við vitum eiginlega ekkert um liðið annað en það að þær eru að koma úr deildinni að ofan. Þess vegna er ég ánægð að mæta þeim full af orku og óþreyttum fótleggjum í fyrsta leik. Við unnum þær 4-3 síðast þegar við spiluðum við þær en það var árið góða 2008 þegar við tókum einmitt eina gullið okkar hingað til. Það verður spennandi að sjá hvernig liðið þeirra er og hvort þær hafi bætt sig síðustu ár. En við stefnum á sigur það er ekki spurning,“ segir Birna.

Alls eru 12 leikmenn úr Skautafélagi Akureyrar að keppa með Íslandi á mótinu og segir Birna það afar ánægjulegt að mótið fari fram á Akureyri.

,,Það er svakalega ánægjulegt og frábært tækifæri að fá heimsmeistarmót hingað til Akureyrar. Áhugi íbúa á sportinu er mikill enda hefur karla og kvennaliðið verið mjög sigursælt síðustu áratugi og ég vona svo sannarlega að fólk á öllum aldri sjái sér fært um að mæta á einhverja þeirra fimmtán leikja sem verða leiknir.“

Óhætt er að hvetja fólk til að mæta í Skautahöllina í vikunni þar sem framboðið af íshokkí verður gífurlegt en nánari dagskrá má sjá neðst í fréttinni. Sérstaklega hvetjum við fólk til að flykkjast á bakvið íslenska liðið en Birna segir stuðning áhorfenda svakalega mikilvægan fyrir stelpurnar á svellinu.

,,Vá það er svakalega mikilvægt og ég vona svo sannarlega að fólk hafi áhuga að koma og upplifa skemmtilega, hraða og spennandi leiki í höllinni. Við elskum að heyra hvatningshróp og finna fyrir stemmningunni frá áhorfendum enda er það sannað að áhorfendur eru hluti af leiknum og jafnvel sjöundi leikmaðurinn ekki satt? Allur stuðningur er því meira en vel þeginn. Ég mæli með að fólk komi vel klætt og jafnvel með teppi og láti í sér heyra enda lofum við frábæru hokkíi og vonandi fallegum mörkum,“ segir Birna að lokum.

Nóg um að vera í Skautahöllinni næstu daga.

Sjá einnig

Ísland lagði Nýja-Sjáland í lokaundirbúningi fyrir HM

Tólf úr SA í HM-hópi Íslands

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó