Miðvikudaginn 8. febrúar kl. 17-18 verður stofnfundur félagssamtakanna Vinir Listasafnsins á Akureyri haldinn í Listasafninu, Ketilhúsi. Á fundinum geta áhugasamir velt fyrir sér hlutverki og tilgangi slíkra samtaka og rætt hugmyndir sín á milli. Stefnt er á að meðlimir geti komið með hugmyndir að fyrirlestrum, málþingum og annarri dagskrá auk þess að geta aðstoðað við sérstaka viðburði á vegum safnsins.
Dagskrá fundarins:
Rósa Kristín Júlíusdóttir segir frá sambærilegri starfsemi Listasafna á Norðurlöndunum, Ítalíu og í Bandaríkjunum.
Hlynur Hallsson, safnstjóri, segir frá starfsemi Listasafnsins, fyrirhuguðum framkvæmdum og framtíðarmöguleikum.
Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, verður með stutta leiðsögn um sýningar á verkum Nínu Tryggvadóttur og Georgs Óskars og segir jafnframt frá fræðslustarfinu.
Umræður og hugmyndavinna.
Aðild að Vinum Listasafnsins mun kosta 2.500 kr. árlega en 2.000 kr. fyrir 18 ára og yngri, 67 ára og eldri og námsmenn. Aðild felur jafnframt í sér:
Árskort í Listasafnið á Akureyri
Gjöf frá Listasafninu
Ókeypis aðgang að Hönnunarsafni Íslands og Gljúfrasteini, húsi Halldórs Laxness
Afslátt af sýningarskrám og vörum í fyrirhugaðri safnbúð
Leiðsagnir um sýningar og kynningu á dagskrá og viðburðum á vegum safnsins.
Allir áhugasamir hvattir til að mæta.
UMMÆLI