Grettir Gautason heldur úti hlaðvarpsþáttinn Grettistak á Kjarnanum. Grettir fær þar til sín áhugaverða einstaklinga í viðtal og ræðir við þá um allt á milli himins og jarðar. Kaffið heyrði í Gretti sem sagði okkur frá þættinum, ólíkum viðmælendum og vinnunni á bakvið hvern þátt.
„Mig langaði aðallega að tala við fólk sem ég hafði ekki haft tækifæri til þess að tala við án þess að geta falið mig á bakvið eitthvað viðtal. Ég væri líka að ljúga ef ég segði að mig langaði ekki líka að fóðra aðeins ferilskránna með þessu. Síðan hef ég auðvitað bara gaman af þessu.“ Grettir segir ferlið að komast að á jafn stórum miðli og Kjarnanum með hlaðvarpsþátt hafi ekki verið jafn flókið og fólk heldur og hvetur fólk sem langar að byrja með hlaðvarpsþátt og er með góða hugmynd að setja sig í samband við Kjarnann. „Ég setti mig í samband við þá og fékk að koma og kynna hugmyndina mína. Þeir sögðust vilja breyta smávægilegum hlutum en annars væri ég með frjálsar hendur. Þeir vissu líka af þættinum sem ég hafði verið með á Nútíminn.is þannig þeir vissu að ég væri enginn nýgræðingur.“
Hann segir það skemmtilegasta við að stjórna slíkum þætti sé án efa viðtalið sjálft. „Í nokkrum tilfellum hef ég verið að sötra bjór og jafnvel viskí, sem skemmir svo sannarlega ekki fyrir Þegar maður finnur að maður er dottinn inní ákveðið ,,flæði” í samtalinu þá er það alltaf skemmtilegt líka. Það leiðinlegasta er án efa að klippa viðtalið eftir á og öll ,,post” vinna sem kemur með þessu, það kæmi eflaust einhverjum á óvart hvað það tekur langan tíma.“
Grettir segir uppáhalds viðmælandinn hans hingað til hafa verið rapparinn Ágúst Bent. „Hann var mjög óheflaður og alls ekki hræddur við að segja það sem honum datt í hug. Einnig var þetta fyrsti þátturinn sem náði almennilegu flugi og er í dag með vinsælustu hlaðvarpsþáttum sem gefnir hafa verið út hér á landi. Við vorum líka komnir svolítið vel í það undir lokin og ég þurfti að klippa út um það bil 20 mínútur.“
„Þurrasta viðtalið var án vafa við Agnesi Sigurðardóttir, biskup Íslands. Þetta er eina skiptið sem ég hef tekið upp viðtal annarsstaðar en í hljóðverji Kjarnans. Ég fór til hennar á skrifstofuna hennar í Kirkjuhúsinu á Laugavegi. Við sátum síðan hvort á móti öðru, hún í fullum biskups skrúða, inni á skrifstofunni sem er talsvert stærri en íbúðin mín. Undarlegur stemmari sem skilaði sér seinna í lítilli hlustun.“
Grettir fer mismunandi leiðir í að velja sér viðmælendur. „Oftar en ekki er þetta einfaldlega fólk sem ég hef áhuga á og langar að spjalla við. Stundum er eitthvað sérstakt málefni sem mig langar að kynna mér og eftir að hafa lagst í smá rannsóknarvinnu rekst ég á manneskju sem er kjörin til þess að tala við. Dæmi um slíkt er spjallið sem ég átti við Margréti Nilsdóttir. Hún er BDSM hneigð og mig langaði til að tala við einhvern sem hrærist í þeim heimi. Á svipuðum tíma var mikil umræða í gangi um BDSM hneigða einstaklinga og rétt þeirra í Samtökunum 78.“ Aðspurður segir Grettir að hann hafi kynjahlutfallið í þáttunum alltaf á bakvið eyrað. Ef hann mætti velja sér einn viðmælanda í öllum heiminum yrði Earl Simmons, einnig þekktur sem DMX, ofarlega á listanum.
Grettir segir þetta því miður ekki vera framtíðarstarf þar sem ekki sé mikill peningur í þessum geira. Hann stefnir þó að því að halda áfram í einhvern tíma.
Hægt er að hlusta á Grettistak annan hvern þriðjudag á hlaðvarpi Kjarnans og ef fólk er með uppástungur eða athugasemdir er um að gera að hafa samband við Gretti sjálfan. Aðalheiður Halldórsdóttir, dansari í íslenska dansflokkinum, er næsti gestur í Grettistaki, þriðjudaginn næstkomandi, 7 febrúar. Hægt er að nálgast alla þættina, sem og aðra sem Kjarninn gefur út, á www.kjarninn.is/hladvarp.
UMMÆLI