Biggi Hilmars hefur getið sér gott orð sem tónskáld síðasta einn og hálfan áratug eða svo. Hann hefur m.a. samið tónlist fyrir sjónvarpsþætti og heimildarmyndir sem hlotið hafa alþjóðleg verðlaun, gefið út hljómplötur og samið tónlist fyrir leikhús. Biggi gaf á dögunum út nýjustu afurð sína. Um er að ræða plötu með tónlistinni úr sviðslistaverkinu Tæringu sem sýnt var á Kristnesi á nýliðnu ári við góðar undirtektir. Tónskáldið segir svo frá á facebook:
Það voru mikil forréttindi að fá að hitta fólk og vinna með því í viku, í algerlega óviðjafnanlegu umhverfi, með yfirsýn yfir Eyjafjörðinn. Ekki síst að vera á þessum sögufræga stað, þar sem margir hafa glímt við mikil veikindi í gegnum tíðina. Það er einhver dulúðleg orka yfir staðnum og umhverfinu og ég held að við sem höfum komið þangað og dvalið, getum verið sammála um það. Ég vann músíkina með sellóleikaranum Grétu Rún Snorradóttur, en við eigum það sameiginlegt að hafa átt langömmur sem glímdu við berkla á Hælinu á síðustu öld, sem er alveg magnað og sýnir okkur hvað við erum tengd og hversu þetta er lítill og brigðull heimur.
Meira um Bigga Hilmars og tónlistina úr Tæringu á Grenndargralinu.
UMMÆLI