Höskuldur Þórhallsson ætlar ekki í framboð – vill komast í stjórnina

Höskuldur Þórhallsson ætlar ekki í framboð – vill komast í stjórnina

Höskuldur Þórhallsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar ekki að bjóða sig fram til formanns KSÍ. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Höskuldi, en hann hafði lýst því yfir að hann væri að íhuga framboð.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að Höskuldur hyggist bjóða sig fram til stjórnarsetu innan knattspyrnusambandsins. Björn Einarsson og Guðni Bergsson eru tveir í framboði en kosningin fer fram á ársþingi KSÍ laugardaginn 11. febrúar næstkomandi.

Tilkynninguna í heild má lesa hér fyrir neðan:

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hef ég að undanförnu legið undir feldi varðandi framboð til formanns Knattspyrnusambands Íslands. Ástæða þess að ég ákvað að íhuga þá vegferð er sú að komið var að máli við mig af aðilum innan knattspyrnuhreyfingarinnar sem vildu vita hvort ég væri til í að bjóða mig fram. Þessir aðilar töldu að reynsla mín og menntun gætu nýst vel í starfið.  

Í mínum huga skiptir miklu máli að aðstaða félaga til knattspyrnuiðkunar sé sem jöfnust hvar sem liðin eru stödd á landinu og að tryggð verði áfram sanngjörn dreifingu fjármagns KSÍ til aðildarfélag þess. Ég er líka þeirrar skoðunar að aukin verði framlög í Ferðasjóð íþróttafélaga og Jöfnunarsjóð KSÍ og jafnframt að knúið verði á enn hagstæðari flugfargjöld fyrir félög til keppnisferða. Einnig tel ég mikið hagsmunamál að íþróttafélög fái endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja en það er ekki eingöngu mikilvægt fyrir framgang knattspyrnunnar í landinu heldur einnig alla aðra íþróttastarfsemi. Þá tel ég mikilvægt að umbætur verði gerðar á starfsemi KSÍ og að samvinna þess og knattspyrnufélaga verði aukin.

Eftir langa íhugun um hugsanlegt framboð mitt til formanns KSÍ og eftir að hafa fylgst með núverandi frambjóðendum, sem ég tel vel hæfa til að gegna formannsstarfinu, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til að ég blandi mér í slaginn. Ég treysti því að báðir, hvor sem kosinn verður, rækti þau áherslumál sem félögum innan knattspyrnusambandsins er svo umhugað um; að þau fái aukinn styrk til að rækta grasrót sína. Þrátt fyrir að ég gefi ekki kost á mér til formennsku í KSÍ hef ég ákveðið að bjóða mig fram til stjórnarsetu innan sambandsins þar sem ég vona að reynsla mín og þekking geti nýst í þágu KSÍ og til áframhaldandi uppbyggingar knattspyrnuíþróttarinnar um allt land.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó