Gæludýr.is

Tryggvi Snær frábær í tíu stiga tapi Þórs

Tryggvi Hlina stóð fyrir sínu í kvöld. Mynd: Vísir

Þórsarar biðu lægri hlut fyrir Grindvíkingum í Íþróttahöllinni á Akureyri í Dominos-deild karla í kvöld.

Ekki var boðið upp á mjög fallegan körfubolta í Höllinni í kvöld, ekki frekar en þegar þessi lið mættust í 8-liða úrslitum Maltbikarsins en líkt og þá, voru Grindvíkingar örlítið skárri og unnu því leikinn með tíu stigum, 65-75.

Tryggvi Snær Hlinason var langbesti leikmaður Þórs í leiknum en hann var nálægt þrennu. Þessi 216 sentimetra landsliðsmiðherji skoraði 15 stig, tók 14 fráköst og varði 9 skot. Það vantaði þó talsvert upp á hjálp frá liðsfélögunum en Þórsarar spiluðu afar lélegan sóknarleik í kvöld og skoruðu til að mynda einungis eina þriggja stiga körfu í öllum leiknum.

Þór og Grindavík eru því jöfn að stigum að fimmtán umferðum loknum en næsti leikur Þórs er gegn Haukum í Hafnarfirði þann 3.febrúar næstkomandi.

Stigaskor Þórs: Darrel Lewis 23, Tryggvi Snær Hlinason 15/14 fráköst, George Beamon 13, Ingvi Rafn Ingvarsson 7, Ragnar Helgi Friðriksson 4, Þröstur Leó Jóhannsson 3.

Stigaskor Grindavíkur: Dagur Kár Jónsson 22, Ólafur Ólafsson 18, Ómar Örn Sævarsson 10/13 fráköst, Þorleifur Ólafsson 8, Lewis Clinch Jr. 8, Ingvi Þór Guðmundsson 5, Jens Óskarsson 2, Þorsteinn Finnbogason 2.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó