Þá eru framkvæmdir við Drottningarbrautarreit vel á veg komnar en eins og Akureyringum er kunnugt stendur til að byggja þrjú tveggja hæða íbúðarhús með risi, á svæðinu sem og hótel á horninu við Samkomuhúsið. Á myndunum má sjá að fyrstu tvö húsin eru langt komin, en þeir sem að verkinu standa eru að öllum líkindum á undan áætlun vegna frábærra veðurskilyrða í vetur, en t.a.m. var þetta einn hlýjasti desembermánuður á Íslandi í manna minnum.
Á myndinni sést fyrsta húsið þar sem að tvær hæðir eru komnar upp, ásamt bílakjallara. Húsið á því eftir að hækka enn meira þegar risinu verður bætt ofan á. Ástæða þess að bílakjallarinn er ekki staðsettur neðar í jörðinni er sú að svæðið sem umræðir er mest megnis uppfylling, þ.e. hér áður fyrr náði sjórinn alveg upp að húsum Hafnarstrætis, áður en að fyllt var upp í hann. Því var ekki ráðlegt að setja bílakjallarann neðar í jörðina.
Ekki eru húsin og íbúðir þeirra komnar á sölu enn sem komið er en heimildir Kaffisins herma að þær komi til með að fara í sölu á næstu vikum.
UMMÆLI