Það er stórt ár framundan í íslenskum kvennafótbolta því næsta sumar mun íslenska landsliðið halda til Hollands og taka þátt í lokakeppni EM.
Um helgina standa yfir landsliðsæfingar hjá stelpunum og fara þær fram í Boganum á Akureyri. Í 30 manna æfingahópnum eru tveir leikmenn Þórs/KA, þær Sandra María Jessen og Lillý Rut Hlynsdóttir. Þá eru fjórir fyrrum leikmenn Þórs/KA í þessum æfingahópi.
Sjá einnig: Ein úr Þór/KA í æfingahópi A-landsliðsins (Lillý Rut bættist síðar við hópinn)
Stelpurnar hafa gert meira en að æfa því þær hafa verið duglegar að sýna sig og sjá aðra. Í gær fóru þær í heimsóknir í grunnskóla Akureyrar þar sem spurningar varðandi mataræði, æfingar, Þór eða KA, Ronaldo eða Messi og áhuga fjölmiðla á konum í íþróttum var meðal þess sem bar á góma.
Í hádeginu í dag var svo æfing hjá landsliðinu sem var opin gestum og gangandi og var öllum frjálst að hitta hetjurnar að æfingu lokinni. Óhætt er að segja að áhuginn hafi verið mikill og gáfu landsliðskonurnar sér góðan tíma til að árita myndir og fleira.
UMMÆLI