Plötuútgáfan SG-hljómplötur gaf út jólaplötuna Oss berast helgir hljómar árið 1968. Hér er um margt mjög athyglisverð hljómplata á ferðinni. Platan er 33 snúninga og inniheldur 14 sálma og helgilög í flutningi Kirkjukórs Akureyrar. Hugmyndina að útgáfu plötunnar átti Fríða Sæmundsdóttir. Stafsetning á nafni kirkjunnar þar sem platan var tekin upp vekur athygli. „Hljóðritun fór fram í Mattíasarkirkju, Akureyri“.
Stjórnandi Kórsins er Jakob Tryggvason og orgelleikari Haukur Guðlaugsson. Haukur spilar á pípuorgel Kirkjunnar sem þá var í notkun en það var af mörgum álitið „eitt bezta hljóðfæri sinnar tegundar hérlendis.“ Þrír Akureyringar komu að hönnun plötuumslagsins sem er teiknað af Kristjáni Kristjánssyni. Ljósmyndina af kirkjunni sem prýðir framhliðina tók Eðvarð Sigurgeirsson en myndina af kórnum á bakhliðinni tók Matthías Gestsson.
Platan er einstök fyrir margra hluta sakir. Um er að ræða fyrstu sálmasöngplötu af þessari stærð sem gefin er út hér á landi auk þess sem platan er sú fyrsta á vegum SG-hljómplatna sem tekin er upp í stereo. Pétur Steingrímsson sá um hljóðritun. Þá er gaman að segja frá því að hljómplatan, eða öllu heldur efni hennar, kom við sögu í fyrsta skipti sem útvarpað var beint frá guðsþjónustu í Akureyrarkirkju í útvarpi allra landsmanna, Rás 1. Þessir tímamótaútsending fór í loftið á jóladag 1968, nokkrum dögum eftir að platan kom í verslanir. Kirkjukór Akureyrar söng við undirleik Jakobs. Séra Pétur Sigurgeirsson þjónaði fyrir altari.
Platan fékk góða dóma hjá Hauki Ingibergssyni í Morgunblaðinu þann 20. desember 1968. Í lokaorðum ritar hann: „Gott er að geta gengið að hljómplötu þessari, er amstur hins daglega lífs er að kaffæra þreyttar sálir. Er þá fátt betra en draga sig í hlé um stund, setja plötuna á fóninn, og tónar hennar munu vissulega færa mann ögn nær guði sínum. Þökk sé Kirkjukór Akureyrar fyrir mannbætandi hljómplötu.“
Heimildir:
Haukur Ingibergsson. (1968, 20. desember). Hljómplötur, Morgunblaðið, bls. 15.
Oss berast helgir hljómar [plötuumslag]. (1968). SG-hljómplötur.
SJ. (1968, 29. desember). Messuðu í kirkjum fullum af fólki á jólunum. Tíminn, bls. 16.
UMMÆLI