Laugardaginn 14. janúar kl. 15 verða opnaðar tvær fyrstu sýningar ársins í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi: yfirlitssýning á verkum Nínu Tryggvadóttur, Litir, form og fólk, og sýning Freyju Reynisdóttur, Sögur.
Nína Tryggvadóttir (1913-1968) var meðal frjóustu og framsæknustu myndlistarmanna sinnar kynslóðar og þátttakandi í formbyltingunni í íslenskri myndlist á 5. og 6. áratugnum. Hún nam myndlist í Kaupmannahöfn og New York og bjó auk þess í París, Lundúnum og Reykjavík. Nína vann aðallega með olíu á striga en hún er einnig þekkt fyrir pappírsverk, verk úr steindu gleri, mósaíkverk og barnabækur. Hún var einn af brautryðjendum ljóðrænnar abstraktlistar. Sýningin Litir, form og fólk er unnin í samvinnu við Listasafn Íslands, en í safneign þess eru um 80 verk eftir Nínu frá tímabilinu 1938–1967. Hún er að hluta byggð á sýningunni Ljóðvarp sem sett var upp í Listasafni Íslands 2015, en í tengslum við þá sýningu kom út vegleg bók um Nínu. Bókina prýðir fjöldi ljósmynda af verkum hennar auk greina og viðtala á íslensku og ensku.
Fjölskylduleiðsögn um sýninguna með Heiðu Björk Vilhjálmsdóttur, fræðslufulltrúa, laugardaginn 4. febrúar kl. 11-12. Sýningarstjóri er Hlynur Hallsson.
Verk Freyju Reynisdóttur (f. 1989) eru unnin í ólíka miðla en fjalla mörg hver um þá þráhyggju mannsins að skilgreina allt og alla, en einnig um þræðina sem við eigum sameiginlega s.s. upplifanir, minni og samskipti. Þessar vangaveltur eru ennþá ofarlega á baugi í sýningunni Sögur þó engin endanleg niðurstaða sé í boði. Erfitt er að sjá fyrir hvað áhorfandinn spinnur út frá frásögn listamannsins, enda er það einstaklingsbundið. Freyja útskrifaðist úr Myndlistaskólanum á Akureyri 2014 og hefur starfað og sýnt á Íslandi, Danmörku, Spáni, Þýskalandi og í Bandaríkjunum. Hún hefur rekið sýningarýmið Kaktus auk þess að halda árlega listviðburðinn Rót á Akureyri og tónlistarhátíðina Ym.
Sýning Freyju stendur til 26. janúar en yfirlitssýning á verkum Nínu Tryggvadóttur til 26. febrúar.
UMMÆLI