Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta og leikmaður enska B-deildarliðsins Cardiff City, þénar 128 milljónir króna á ári ef marka má úttekt blaðamannsins Óskars Hrafns Þorvaldssonar.
Það gerir Aron Einar að níunda launahæsta knattspyrnumanni Íslands um þessar mundir en þessi 27 ára gamli baráttuhundur úr Skarðshlíðinni hefur átt farsælan feril í atvinnumennsku eftir að hann var keyptur frá Þór til AZ Alkmaar um mitt sumar 2006.
Óskar Hrafn hefur undanfarnar vikur birt á Twitter síðu sinni árslaun þeirra sem hann segir vera 57 launahæstu knattspyrnumenn Íslands árið 2016 og segir hann að um sé að ræða grunnlaun fyrir skatt, miðað við meðalgengi gjaldmiðla á árinu.
Inn í þessa tölu falla því ekki bónusar eða aðrar tekjur sem knattspyrnumennirnir hafa, meðal annars auglýsingatekjur og önnur fríðindi.
Óskar Hrafn úti á þekju?
Nokkrir knattspyrnumenn segja Óskar Hrafn ekki vera með réttar upplýsingar. Hólmar Örn Eyjólfsson er einn þeirra og segir hann að Óskar sé úti á þekju en Hólmar er sagður hafa þénað 17 milljónir króna á síðasta ári.
Óskar hefur ekki greint frá því hvaðan hann hefur þessar upplýsingar en hann er þrautreyndur íþróttafréttamaður og lék sjálfur knattspyrnu á sínum yngri árum. Hann á þrjá A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd.
Fjórir Akureyringar meðal 57 launahæstu knattspyrnumanna landsins
Hallgrímur Jónasson er í 33.sæti listans með 19 milljónir króna á árinu 2016 en hann lék fyrir OB og Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni á liðnu ári. Sama krónutala er nefnd hjá KA-manninum Hauki Heiðari Haukssyni og er hann í 37.sæti listans en hann leikur fyrir sænska stórliðið AIK.
Ætla má að einn Akureyringur sé á lista yfir átta launahæstu knattspyrnumenn Íslands því laun Birkis Bjarnasonar hafa enn ekki verið birt.
Sjá einnig
Aron Einar í nærmynd – Atli og Palli gerðu mig að þeim íþróttamanni sem ég er
Hallgrímur Jónasson í nærmynd – Mestu vonbrigðin að fara ekki á EM
Haukur Heiðar Hauksson í nærmynd – Myndi aldrei spila með Þór
UMMÆLI