Lögreglan á Akureyri kvaddi í gær bifreið sem margir Akureyringar ættu að kannast við. Bifreiðin er búin að vera í notkun í bænum síðan í júní árið 1997.
„Það var sérstakur dagur í gær þegar að við kvöddum maríuna okkar, 119. Ford Econoline sem að er búinn að vera í notkun á Akureyri síðan júní 1997. Margir hafa byrjað sín fyrstu skref í lögreglunni sem þriðji maður í aftursætinu í þessari lögreglubifreið. Bifreiðin hefur verið áberandi í kringum næturlífið á Akureyri um helgar og ófáir í misjöfnu ástandi sem að hafa fengið „skutl“ í þessari bifreið,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
„Lögreglumönnum á Akureyri þykir mörgum vænt um 119 og því var það ánægjulegt að Samgönguminjasafnið á Ystafelli ætlar að varðveita bifreiðina fyrir Lögregluminjasafnið. Það var umferðardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra sem að afhenti bifreiðina Samgönguminjasafninu.“
UMMÆLI