Bestu myndir ársins 2016

Við hjá Kaffinu tókum saman stuttan lista yfir bestu myndir ársins. Myndirnar hafa allar fengið mjög góða dóma og eiga það sameiginlegt að vera góð afþreying. Vissulega eru margar myndir sem ekki komust á listann, enda þúsundir mynda gerðar á hverju ári. Það er þó nokkurn veginn hægt að fullyrða það að þessar stóðu upp úr á árinu.

Jungle Book kom út í vor.

Jungle Book kom út í vor.

Jungle book
Jungle book er frábær, leikin endurgerð, á myndinni um Mógla sem elst upp með dýrum. Myndin er fyndin, svakalega sjónræn og skemmtileg. Fyrir þá sem voru aðdáendur Jungle Book teiknimyndarinnar sem krakkar er þessi mynd ennþá meira í plús.

Deadpool
Ofurhetjumynd með Ryan Reynolds hlaut að lofa góðu. Sjúklega kaldhæðin, fyndin og full af hasar. Það eru sennilega flestir búnir að sjá þessa, en það má alltaf horfa aftur á svona snilld.

Arrival
Sci-fi mynd með Amy Adams og Jeremy Renner í aðalhlutverkum. Arrival fékk mjög góða dóma og er talin með betri myndum ársins. Það er ekki langt síðan að hún kom í bíó og því kannski ekki allir sem hafa náð að skella sér á hana. Við mælum hinsvegar hiklaust með þessari.

Doctor Strange
Marvel heldur áfram að búa til svakalegar ævintýra- og spennumyndir, í þetta skiptið er það mynd byggð á teiknimyndasögum um læknirinn Doctor Strange, sem leikinn er af Benedict Cumberbatch.

The Lobster
Mjög súr hugmynd. Maður, sem leikinn er af Colin Farrel, fer á hótel þar sem að hann verður að finna sér maka innan 45 daga eftir innritun, annars breytist hann í dýr að eilífu, dýr að eigin vali þó. Colin velur sér humar, og þarf því að finna sér maka til þess að breytast ekki endanlega í humar. Ótrúlegt að þessi mynd sé á listanum, hugsar þú kannski, en hún fór fram úr öllum væntingum, eða ætti ég að segja engum væntingum.

Green room
Svakalegasta spennumynd sem hefur sést lengi, að mínu mati. Anton Yelchin, sem lést fyrr á þessi ári aðeins 27 ára gamall, fer með eitt aðalhlutverkanna í þessum svakalega spennutrylli. Þessi er hiklaust fyrir alla þá sem hafa gaman af góðum spennu-/hryllingsmyndum. Svo skaðar ekki að Patrick Stewart leiki vonda kallinn.

Fantastic  beasts and where to find them
Frábær ævintýramynd úr smiðju J.K.Rowling. Ótrúlegar sjónbrellur, góður söguþráður og skemmtilegir galdrar og galdraverur. Allir Harry Potter aðdáendur og þeir sem ekki fýluðu Harry Potter, þessi mynd er fyrir alla.

Star Wars: Rogue one
Sjálfstæð Star Wars saga, alveg ótengd áður séðum Star Wars myndum. Ég held að það hafi margir ekki vitað alveg við hverju þeir ættu að búast af þessari, en útkoman var svo á endanum bara mjög góð.

Finding Dory
Skemmtileg og góð teiknimynd. Það skiptir ekki máli hvað maður verður gamall, það er alltaf gaman að sjá góða teiknimynd. Finding Dory fjallar um hana Dóru sem við kynntumst fyrst í Finding Nemo.

Captain America: Civil war
Þessar Marvel ofurhetjur klikka seint. Fullar af svakalegum, háværum og ýktum bardagaatriðum, kjánalegum „one liners“ og dramantík inn á milli. Það þarf ekkert að útskýra þessa nánar.

Það er ágætt að minna á það að hér vantar eflaust fullt af myndum. Eins þarf þetta mat alls ekki að endurspegla mat þjóðarinnar. Glöggir hafa eflaust tekið eftir því að það eru engar heimildamyndir eða slíkt á listanum en listi með áhrifaríkum myndum mun mögulega koma seinna. Listinn var meira gerður með vinsældir, umfjallanir og góða dóma til hliðsjónar. Einnig er hægt að nýta sér hann þegar erfiðleikar jólafrísins gera vart við sig og maður getur ómögulega fundið mynd sem maður vill horfa á og veit að veldur manni ekki vonbrigðum.
Gleðilegt nýtt ár!

Sambíó

UMMÆLI