A! Gjörningahátíð

„Fannst ég aldrei vera að missa af einhverju þegar aðrir voru að halda jól”

„Fannst ég aldrei vera að missa af einhverju þegar aðrir voru að halda jól”

„Mér fannst ég aldrei fá þá tilfinningu að ég væri að missa af einhverju þegar aðrir voru að halda jól,” segir Andri Þór Friðriksson, þrítugur Akureyringur en Andri er einn af rúmlega 400 vottum Jehóva á Íslandi. Kaffið.is settist niður með Andra og fékk aðeins að skyggnast inn í líf ungs manns sem valið hefur að helga líf sitt þessum trúarbrögðum.

Andri er þriðji í röð átta systkina og er alinn upp á fjörugu heimili. Andri bjó lengst af í Þorpinu á Akureyri og gekk í Glerárskóla. Andri flutti suður tvítugur en þá hafði hann skírt sig sem einn af vottum Jehóva og var sannfærður um að hafa fundið sannleikann um skapara sinn.

img_3499

Andri, ásamt systrum sínum


Ólst upp í söfnuðinum
Andri hefur allt sitt líf verið virkur í söfnuðinum fyrir utan smá tíma á unglingsárunum „Foreldrar mínir gengu í söfnuðinn þremur árum áður en ég fæddist svo ég var alinn upp í söfnuðinum allt frá fæðingu. Þegar ég var 15-16 ára ákvað ég þó að hætta að mæta á samkomur og iðka trú foreldra minna, næstu þrjú árin fór ég mínar eigin leiðir og þessi ár reyndust ekki þau bestu í mínu lífi.”

Ég byrjaði að nema Biblíuna með hjálp votta Jehóva þegar ég var 18 ára gamall og varð strax stórhrifinn af því sem ég lærði. Það sem ég tók strax eftir var að Biblían var alltaf notuð við að svara öllum mínum spurningum, svörin voru rökrétt og einföld og ég var sannfærður um að ég hefði fundið sannleikann um skapara minn. Ég skírðist svo 19 ára sem einn af vottum Jehóva.”

Vottar Jehóva lesa biblíuna eins og fólk sem aðhyllist kristna trú en skera sig þó úr á ýmsa vegu. Ég man þegar ég byrjaði að kynna mér Biblíuna hvað mér fannst það skrítið að til væru þúsundir kristinna trúarhópa en allir héldu á einu og sömu bókinni og sögðust trúa því sem þar kæmi fram. Mér fannst skrítið hvers vegna við værum ekki öll sammála um innihald hennar. Það sem sker okkur frá öðrum kristnum söfnuðum er að við notum nafn Guðs eins og það kemur fram í Biblíunni. Nafn Guðs er Jehóva og það stendur um 7.000 sinnum í upphaflegum handritum Biblíunnar.”

„Annað sem ég vil nefna er að Jesús sagði að það sem myndi einkenna sanna fylgjendur sína væri að þeir myndu bera sanna elsku hver til annars. Kærleikur okkar til hvors annars og náungans gerir það að verkum að við tökum ekki þátt í stríðum undir neinum kringumstæðum, þar sem herskylda er förum við frekar í fangelsi því samviska okkar leyfir okkur ekki að fara í herinn.”


Trúa því að heimurinn í núverandi mynd sé senn á enda
Ljóst er að flest allir þekkja söfnuðinn og sitt sýnist hverjum um ágæti hans en hvað þýðir það að vera vottur Jehóva?

Við trúum loforðum Guðs í Biblíunni um að innan skamms muni skapari okkar taka í taumana og eyða illsku og koma á varanlegum friði þar sem fólk mun eiga tækifæri á að lifa að eilífu við stórkostlegar aðstæður. Þessi sannfæring okkar ásamt því að okkur þykir vænt um fólk í kringum okkur hvetur okkur til að gefa okkur tíma til að segja fólki frá þessari frábæru von Biblíunnar.“

Við erum kölluð vottar Jehóva því við vitnum um Jehóva Guð okkar og segjum frá ríki hans. Biblían er uppfull af loforðum Guðs um betri heim og loforðum um þann dag þegar hann ætlar að taka í taumana og eyða illsku fyrir fullt og allt. Svo það er endir á þessum óréttláta og grimma heimi en ekki endir mannkynsins, Biblían segir að jörðin muni alltaf vera byggð hlýðnu mannkyni sem tilbiður Guð.”

Jesús gaf okkur tákn sem við ættum að vera vakandi fyrir og lýsti hvað ætti að einkenna síðustu daga þessa heimskerfis. Í stuttu máli sagði hann að heimurinn myndi einkennast af auknum stríðsátökum, vaxandi hungri, drepsóttum og jarðskjálftum. Biblían lýsir ekki bara ákveðinni framvindu í heimsmálum heldur segir okkur líka að heimsbyggðin myndi einkennast af útbreiddu lögleysi, guðleysi, grimmd, græðgi og kærleiksleysi. Það sem hann sagði líka var að á þessu tímabili myndi fagnaðarerindið um ríkið verða prédikað um allan heim, vottar Jehóva notuðu rúmlega 1,9 milljarða klukkustunda á síðasta ári í þetta starf.

img_3191

Andri kemur úr stórri fjölskyldu

En hverjir skildu það vera sem Guð mun taka með sér í hina nýju og bættu heimsmynd og hverjir eru það sem sitja eftir. Guð fól syni sínum Jesús Kristi að dæma um það hverjir munu bjargast, en Jesús sagði okkur að þekking og trú væru nauðsynleg í því samhengi. Fólk sem hefur áhuga á því að lesa sig nánar til um trú votta Jehóva vil ég benda á heimasíðuna okkar, jw.org en sú síða er þýdd á 874 tungumál.”

Þiggjum ekki blóð vegna hlýðni okkar við Guð
Blóðgjöf og sú staðreynd að vottar Jehóva gefa hvorki blóð né þiggja kemur oft upp í umræðuna þegar trúarbrögð þessa fólks eru rædd. Andri hefur eins og gefur að skilja sterkar skoðanir á því máli. Í Biblíunni er það tekið skýrt fram að við eigum að halda okkur frá blóði og við þiggjum því ekki blóð vegna hlýðni okkar við Guð. Það er hægt að koma með marga læknisfræðilega punkta líka en viðhorf okkar er þó fyrst og fremst trúarlegt fremur en læknisfræðilegt. Ólíkt því sem margir halda þá sækjumst við eftir bestu mögulegu læknisþjónustu fyrir sjálf okkur og fjölskyldur okkar.”

Ég myndi ekki undir neinum kringumstæðum óhlýðnast skýrum boðum Guðs um að halda mér frá blóði. Staðreyndin er reyndar sú að það er engan veginn hægt að segja með vissu að hafni ég blóðgjöf deyji ég en þiggi ég blóðgjöf lifi ég. Færir skurðlæknar fullyrða að þessar aðstæður muni aldrei geta komið upp.”

img_5006

Það er alltaf létt yfir Andra

Eyðir jólunum í sumarbústað með trúbræðrum
Nú þegar jólin ganga í garð er mörgum hugsað til votta en eins og flestir vita halda þeir ekki jólin hátíðleg. Andri segir hins vegar að jólin hafi aldrei verið erfiður tími í hans lífi, fjölskyldan hafi verið dugleg að nýta fríin til að vera saman. Mér fannst ég aldrei hafa þá tilfinningu að ég væri að missa af einhverju. Eins og ég nefndi í byrjun á ég stórkostlega foreldra og við systkinin höfum alltaf átt mjög gott samband okkar á milli. Við notuðum yfirleitt þessa frídaga til að vaka frameftir og spila, áttum alltaf virkilega góðar stundir saman og mér leið alltaf mjög vel sem barn. Foreldrar okkar voru dugleg að sýna okkur væntumþykju sína allt árið um kring og vottar Jehóva eru dugleg að gefa hvort öðru gjafir þó það tengist ekki jólunum.”

Andri og trúbræður hans í söfnuðinum hafa komið upp þeirri hefð að fara út úr bænum á meðan flestir landsmenn halda jólin. Nú eftir að ég flutti suður höfum við nokkrir vinir í söfnuðinum verið duglegir við það að leigja okkur bústað þessa frídaga og notið þess að slappa af, spilað, farið í pottinn og horft á enska boltann. Ég man ekki enn eftir því að hafa látið mér leiðast þessa lokadaga í desember, ég þakka fyrir það á hverjum degi að hafa kynnst trú votta Jehóva, það hefur fært mér mikla gleði.”

Andri er eins og áður segir þrítugur og er barnlaus og einhleypur. Við spyrjum hann því að lokum hvort það geti ekki verið erfitt að ná sér í maka og stofna fjölskyldu, verandi vottur Jehóva. Biblían segir að við ættum að finna okkur maka sem tilbiður líka Jehóva Guð. Ég er því hjartanlega sammála, svo þess vegna finnst mér það ekki erfitt. Það liggur í augum uppi að ef ég myndi finna mér maka sem ekki væri vottur Jehóva þá myndu líklegast koma upp ýmsir árekstrar. T.d. varðandi uppeldi barna okkar og fleiri þátta,” segir Andri að lokum.

VG

UMMÆLI

Sambíó