Skíðasamband Íslands valdi í dag skíðamann og skíðakonu ársins 2016. Akureyringurinn María Guðmundsdóttir varð fyrir valinu sem skíðakona ársins og gönguskíðakappinn Snorri Einarsson var valinn skíðamaður ársins. Á vefsíðu Skíðasambandsins er sagt að valið í ár hafi verið erfiðara en oft áður enda margir skíðakappar sem stóðu sig vel á árinum sem er að líða.
María kemur úr Skíðafélagi Akureyrar en í augnablikinu keppir hún fyrir skíðalið Háskólans í Anchorage í Bandaríkjunum þar sem hún stundar nám. Í byrjun ársins sigraði hún mót í Snowbird í Utah og náði þriðja sæti á sterku háskólamóti. María tryggði sér þáttökurétt á lokamóti háskólamótaraðarinnar í Bandaríkjunum með góðum árangri á árinu. Einungis 32 bestu stelpurnar frá öllum háskólum í Bandaríkjunum fá þáttökurétt á mótinu. Þar stóð hún sig mjög vel og endaði í 12.sæti í stórsvigi og 18.sæti í svigi.
María keppti einnig í lokamóti Norður Ameríku bikarsins sem er næst sterkasti bikar í heimi á eftir heimsbikar. Þar gerði hún sér lítið fyrir og lenti í 4.sæti María kom svo heim og keppti á Skíðamóti Íslands og stóð sig með ágætum og varð í öðru sæti bæði í svigi og stórsvigi.
María endar árið í 90. sæti á heimslistanum og er það í fyrsta skipti í 4 ár sem Ísland á skíðamann á topp 100 á heimslista.
UMMÆLI