Í sumarbyrjun árið 1981 birtist pistill í Degi undir heitinu Lifandi bær. Höfundurinn Þorvaldur Þorsteinsson kynnir þar hugmyndir sínar um hvernig glæða megi Akureyrarbæ meira lífi yfir sumartímann. Vissulega hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að pistillinn birtist lesendum Dags fyrir tæpum fjórum áratugum síðan. Mögulega hafa skrif Þorvaldar hreyft við einhverjum á sínum tíma, hver veit? Í það minnsta hefur mannlífið í bænum hin undanfarin sumur minnt á sviðsmyndina sem höfundur dregur upp. En betur má ef duga skal. Alltaf má bæta í þegar menning og mannlíf er annars vegar.
Orð Þorvaldar eiga ekki síður við í dag en árið 1981: „Allt of sjaldan erum við minnt á það að samfélagið hefur upp á annað að bjóða en slys, morð, stríð og slæmar fréttir. Því miður gerist það sjaldan að grímunni er svipt af andlitinu og því leyft að brosa framan í náungann.“
Við verðum líklega öll í þörfinni fyrir blómstrandi menningu og iðandi mannlíf næsta sumar. Grenndargralið skorar þess vegna á bæjaryfirvöld og bæjarbúa að verða við 40 ára áskorun Þorvaldar Þorsteinssonar og gera annars góðu mannlífi Akureyrarbæjar enn hærra undir höfði sumarið 2021.
Þorvaldur lést árið 2013.
–
Lifandi bær
Uppstigningardagur var góður dagur á Akureyri. Kom þar einkum tvennt til; veðrið var ágætt og mannlífið óvenju mannlegt. Zontakonur héldu útimarkað inni í fjöru og lúðrasveit gekk spilandi um götur bæjarins. Mátti víða sjá brosandi andlit i gluggum og sumir gerðu sér ferð út í dyr til að fylgjast með tónlistarmönnunum og njóta tilbreytingarinnar.
En þetta var aðeins einn dagur. Einn af allt of fáum líflegum dögum hér í bæ. Allt of sjaldan erum við minnt á það að samfélagið hefur upp á annað að bjóða en slys, morð, stríð og slæmar fréttir. Því miður gerist það sjaldan að grímunni er svipt af andlitinu og því leyft að brosa framan í náungann. Til þess gefst hvorki tími né tilefni, að því er virðist, — „jafnvel“ ekki hér á Akureyri.
Ég legg til að í sumar verði þessu breytt. Í sumar ættum við að nota hvert tækifæri til að lífga upp á miðbæinn okkar og gefa grafalvarlegum vegfarendum tilefni til að afhjúpa jaxlana og tipla ögn léttar um torgið. M.ö.o. gera bæjarbraginn skemmtilegan. Möguleikarnir eru ótalmargir, — ég nefni nokkur dæmi:
Lítill útimarkaður við torgið gæfi miðbænum þekkilegan svip. Í fyrra minnir mig að vísir að útimarkaði hafi verið á torginu. Hann þarf að endurvekja og helst auka við.
Ísvagn á heitum dögum væri kærkominn. Mætti ganga þannig frá vörunni að engin óþrif hlytust af. Ekki ætti pylsuvagn að spilla fyrir stemmingunni. Þó er hann síðri vegna óþrifa sem væntanlega fylgja, því ekki kunnum við enn að ganga um bæinn að mennskum sið. (Nægir að minna á vanþekkingu varðandi notkun rusladalla og óvirðingu við blómaskreytingar á torginu í fyrra).
Hvetja þarf tónlistarfólk til dáða. Tónlistarmaður sem fitlar við hljóðfæri sitt í sólskininu gleður hjarta náungans og léttir honum sporin, Harmonikkuleikari, gítarleikari, flautuleikari eða fiðluleikari, — allt þetta lífgar upp á tilveruna. Er ekki kjörið fyrir nemendur í Tónlistarskólanum að spreyta sig á þennan hátt?
Leikflokkar gætu einnig reynt sig á torginu. Þyrfti lítinn, jafnvel engan viðbúnað svo gaman yrði að.
Og hvað með götumálara eða — teiknara?
Nú finnst einhverjum að draumórar einir séu á ferð. Að fæst af þessu sé framkvæmanlegt í okkar risjótta veðurfari. Þeirri svartsýni svara ég með því að benda á að allt það sem hér hefur verið nefnt er mjög einfalt og auðvelt í meðförum. Auðvelt er að koma því upp með litlum fyrirvara á góðviðrisdegi og hætta við ef syrtir í álinn.
Ég er sannfærður um að hægt er að gera miðbæinn lifandi á einfaldan máta. Ekki skortir möguleikana, aðeins framkvæmdina. Hér ættu einhverjir áhugasamir menn að ýta úr vör. Það þarf einhvern til að brjóta ísinn, — eftir það er leiðin greið. Drífum í þessu í sumar. Það er ekki eftir neinu að bíða.
Góða skemmtun.
Heimild: Grenndargralið
UMMÆLI