Neyðarstig almannavarna vegna Covid-19 tók gildi í gær, á sama tíma og hertar sóttvarnaaðgerðir. Akureyringar eru hvattir til að sýna ítrustu varkárni í öllu sínu daglega lífi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum.
Í tilkynningu Akureyrarbæjar er minnt á að síðasta vor kom fyrsta bylgja Covid-19 til Akureyrar 1-2 vikum eftir að hún gaus upp á höfuðborgarsvæðinu og ekki er ástæða til að ætla að þróunin verði öðruvísi núna.
„Það er undir okkur sjálfum komið að sporna gegn því að þessi bylgja faraldursins verði mjög alvarleg á Akureyri,“ segir í tilkynningunni.
Helstu áhrif neyðarstigs á þjónustu Akureyrarbæjar eru eftirfarandi samkvæmt tilkynningunni:
- Í allri starfsemi á vegum Akureyrarbæjar verða sóttvarnir auknar og mælst til þess að fólk sem sækir þjónustu til sveitarfélagsins nýti sér rafrænar lausnir og síma eins og kostur er. Í því sambandi er sérstaklega vakin athygli á þjónustugáttinni á heimasíðu bæjarins þar sem fólk getur sjálft annast afgreiðslu ýmissa erinda.
- Hjá Öldrunarheimilum Akureyrar verður skerpt á öllum sóttvarnaaðgerðum og m.a. aðgreint enn frekar en nú er á milli eininga. Heimsóknir til íbúa miðast við eina heimsókn á dag og einungis einn gest í einu.
- Í grunn- og leikskólum bæjarins verður leitast við að halda áfram uppbyggilegu skólastarfi en hert á öllum vörnum og viðbúnaði gagnvart Covid-19. Stöðugt skal minnt á eins metra regluna og persónulegar sóttvarnir, foreldrar mega eingöngu koma í forstofur leikskólanna og þeim tilmælum er beint til starfsfólks að það fari ekki á landsvæði þar sem nýgengi smita er hátt nema brýna nauðsyn beri til. Samgangur á milli skóla verður hafður í algjöru lágmarki.
- Heimaþjónustu á vegum Akureyrarbæjar verður sinnt eins og kostur er.
- Sundlaugar sveitarfélagsins verða opnar en með þrengri fjöldatakmörkunum eða 50% af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi.
- Söfn og menningarstofnanir verða opin en með 20 hámarksfjölda gesta.
- Fjöldatakmarkanir (20 manns) gilda ekki um strætó, en í almenningssamgöngum skal nota andlitsgrímu sem hylur nef og munn þar sem eins metra fjarlægð milli einstaklinga verður ekki við komið.
- Allir starfsmenn Akureyrarbæjar eru hvattir til að virða eins metra regluna og setja upp rakningarforrit í símum sínum ef það hefur ekki gert það nú þegar.
- Starfsfólki Akureyrarbæjar í afgreiðslustörfum verður skylt að bera andlitsgrímur.
„Neyðarstig almannavarna undirstrikar alvarleika faraldursins og er fólk hvatt til að herða á sínum persónulegu sóttvörnum. Brýnt er að allir virði eins metra fjarlægðarmörkin alltaf og alls staðar. Takmörkun á fjölda einstaklinga sem kemur saman miðast nú við 20 fullorðna. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin.“
UMMÆLI