Tryggvi Kristjánsson, framkvæmdastjóri Bjargs, líkamsræktarstöðvar á Akureyri, hefur lýst yfir vonbrigðum með ákvörðun stjórnvalda að loka líkamsræktarstöðvum á landsbyggðinni vegna Covid-19 faraldursins.
Tryggvi skrifaði í gær pistil á Facebook-síðu sinni sem hefur vakið gífurlega athygli. Hann kallar eftir því að reglur um lokanir verði í samræmi við alvarleika faraldursins í hverjum landshluta.
„Mér finnst það hreinlega ósanngjarnt að Akureyringar og aðrir í áðurtöldum landshlutum eigi að gjalda fyrir þann slóðaskap sem hópur fólks fyrir sunnan hefur sýnt með því að hlýða ekki fyrirmælum. Það að loka líkamsræktarstöðvum er mikil skerðing á daglegri rútínu margra og má jafnvel segja grunnþjónustu. Það er einmitt á svona erfiðum tímum sem hlutverk líkamsræktarstöðva verður enn stærra og mikilvægara,“ skrifar Tryggvi meðal annars en pistil hans má lesa í heild hér að neðan.
Hertari samfélagslegar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu Covid-19 taka gildi mánudaginn 5. október. Stærstu einstöku breytingarnar verða 20 manna fjöldatakmörkun með ákveðnum undantekningum en þar má nefna 50 manna hámark í útförum og 100 manna hámark í tilteknum verslunum. Krám, skemmtistöðum, spilasölum og líkamsræktarstöðvum verður lokað.
UMMÆLI