Fljótlega eftir áramót hefst starfsemi nýrrar Fab Lab smiðju á Akureyri og er hún staðsett í húsnæði VMA. Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri smiðjunnar, hefur undanfarnar vikur unnið að standsetningu hennar og að gera hana klára áður svo að unnt verði að hefja þar formlega starfsemi. Frá þessu er greint á vefnum VMA.is
Að þessari nýju Fab Lab smiðju stendur FabEy, hollvinafélag um stofnun og rekstur smiðjunnar og var stofnfundur þess í nóvember í fyrra. Að félaginu stóðu í upphafi Nýsköpunarmiðstöð Íslands, VMA, Akureyrarbær og Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar.
„Fab Lab er stafræn smiðja sem er opin fyrir almenning og skólana hér á svæðinu. Fólk nýtir sér að vild aðstöðuna og þá tækni sem hér er í boði. Þessi starfsemi er ekki rekin í hagnaðarskyni, heldur er fyrst og fremst haft að leiðarljósi að fólk geti nýtt sér aðstöðuna á kostnaðarverði. Til þess að geta nýtt sér aðstöðuna er gott fyrir fólk að fara á námskeið og fá betri innsýn í þau forrit sem þarf að nota til þess að nýta sér tæknina í smiðjunni. Fab Lab smiðjan nýtist skólunum mjög vel – öllum skólastigum – og ég sé fyrir mér að hún nýtist sérstaklega vel fyrir frumkvöðla sem ellegar þyrftu að fá ýmsa þjónustu jafnvel erlendis frá,“ segir Jón Þór í samtali við vma.is
UMMÆLI