Framsókn

Menntakerfið gerir unglinga lata

Kristín Hólm Geirsdóttir

Kristín Hólm Geirsdóttir skrifar


Kristín Hólm Geirsdóttir er 23 ára akureyringur búsett á Írlandi. Hún sendi okkur þessar hugleiðingar sínar um menntakerfið.

Staða kennara hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur og hefur hann faðir minn verið duglegur að skrifa um mikilvægi þess að breyta nútíma menntakerfi en hann segir það úrelt og þess valdandi að kennarar geti ekki starfað á sínum forsendum og séu neyddir til þess að fylgja formúlu sem hentaði vel á síðustu öld. Pabbi minn hefur skrifað nokkra góða pistla á Facebook síðuna sína ef einhver hefur áhuga – Geir Hólmarsson – en hann starfar sem kennari í Menntaskólanum á Akureyri og er andskotans snillingur (100% hlutlaust mat).

Í stuttu máli þá snýst málið um úreltar hugmyndir úr námskrám sem gefnar eru út af Menntamálaráðuneytinu. Þessar hugmyndir eru þannig að þær passa bara fyrir ákveðna tegund námsmanna þannig að flestir námsmenn halda sig heimska og seinna meir hætta í skóla. Það er eins og það sé bara til ein leið að menntun og allir skulu gjöra svo vel að fara þessa leið, þeir sem ströggla eru latir og heimskir. Ef við hugsum um þetta þá er þetta svo vitlaust að maður skilur ekki hvernig “óheimsku” fólki dettur svona í hug.

Pabbi minn, aðrir kennarar og mínir kennarar í Háskólanum hérna úti í Írlandi eiga eitt sameiginlegt, þeir vilja breyta þessu. Þeir hafa tjáð sig um það hvernig nemendur eru gerðir heimskari af kerfinu og þá mest, latari. Ég sem nemandi sé þetta líka, meira að segja á háskólastigi, því miður. Þegar nemendur eru latir verða kennarar fúlir sem leiðir til þess að nemendur verða latari og pirraðir sem endar í því að kennarar gefast upp – Það er mjög erfitt að kenna einstakling sem hatar hvert einasta orð sem kemur út úr þér, ég skil þessa kennara mjög vel. Við sem ættum að vera vinir, verðum það ekki. Samt viljum við það sama, góða menntun.

Eftir mörg löng samtöl við snillinginn hann pabba minn þá skil ég loksins almennilega hvað er í gangi. Nemendur eru ekki latir af því að þeir fæddust latir og enginn er heimskur. Menntakerfið gerir unglinga lata í gegnum kennslukerfið. Mikilvægt er að koma því á hreint að það er EKKI út af kennurunum og það er EKKI út af nemendum, heldur menntakerfinu sem þeir neyðast til þess að fylgja. Þessir snillingar sem við köllum kennara og við sem nemendur tökum eins og sjálfsögðum hlut, eins sjálfsögðum og klósettpappír á almenningsklósetti (stundum klikkar það samt, það er alltaf skítlegt, hehe) eru fastir í að kenna samkvæmt reglum sem eru úreltar í þessu nútíma samfélagi sem við búum í.

Með þetta í huga kasta ég fram spurningu. Er þetta ekki líka barátta sem við nemendur ættum að taka þátt í? Viljum við ekki öll nútímakerfi fyrir okkar menntun? Viljum við ekki eiga þann möguleika á að rækta okkar hugmyndaflug og eiga fleiri en eina leið í gegnum menntakerfið? Viljum við ekki öll fá sama tækifæri til þess að uppgötva hvar okkar hæfileikar liggja? Hvort sem það eru tungumál, stærðfræði, list, líffræði, skrif eða eldamennska? Viljum við ekki hafa þann möguleika á að rækta þær gáfur með leiðum sem næra hugmyndaflugið, hugsa út fyrir kassann og uppgötva sjálf hversu góð við erum í því sem við gerum. Það eru allir góðir í einhverju.

Ég mæli með að allir nemendur kynni sér þetta mál. Skilji um hvað þetta snýst , af því að þetta er ekki bara barátta sem kennarar eiga, heldur er þetta barátta sem snýst að okkur nemendum líka.

Áfram nemendur og áfram kennarar.
KHG.

 

VG

UMMÆLI

Sambíó