„Þarna er fallegi afi minn Torfi sem dó 1949 ljóslifandi á filmu“

„Þarna er fallegi afi minn Torfi sem dó 1949 ljóslifandi á filmu“

Ég tók viðtal við Málfríði Torfadóttur og las ævisögu Dr. Kristins Guðmundssonar í sumar. Þetta gerði ég í tengslum við hlaðvarpsþættina Leyndardómar Hlíðarfjalls sem fjalla um veru setuliðsins í fjallinu á stríðsárunum. Í báðum þessum tilvikum beindist athyglin að samskiptum Málfríðar, Kristins og fjölskyldu þeirra við setuliðið. Fyrir nokkrum dögum birtust þau mér á góðri stund með breskum hermönnum, í myndbandi sem breski herinn lét gera á stríðsárunum. Aukinheldur sjást aðrir fjölskyldumeðlimir í myndbandinu sem höfðu komið við sögu í spjalli okkar Málfríðar og í ævisögu Dr. Kristins.

Málfríður lýsti fyrir mér hversu Bretarnir hrifust af litlu stúlkunni með ljósu lokkana og hvernig þeir óskuðu eftir því að fá að halda á henni. „Við eigum nefnilega eina svona heima í Englandi“ sagði hún mér að þeir hefðu sagt við heimilisfólkið á bænum. Kristinn lýsir erfiðu hlutskipti foreldranna í ævisögu sinni þegar þeir þurftu að hlúa að köldum og hröktum setuliðsmönnum sem höfðu lent í hrakningum í Hlíðarfjalli. Að vera búinn að heyra og lesa þessar sögur og fleiri til sem gerðust fyrir 80 árum síðan og sjá svo litlu stúlkuna með ljósu lokkana, manninn sem vann náið með breska setuliðinu á Akureyri og gömlu hjónin sem hlúðu að hætt komnum setuliðsmönnum í Hlíðarfjalli – lifna við á tölvuskjánum – þótti mér alveg stórmerkilegt.

Ég hafði samband við Önnu Kristínu Arnarsdóttur. Hún er dóttir Málfríðar og hafði milligöngu um fund okkar Málfríðar í sumar. Ég vildi láta hana og fjölskyldu hennar vita af þessari skemmtilegu uppgötvun. Eftir að hafa horft á myndbandið fékk ég svar frá Önnu Kristínu.

Þúsund þakkir fyrir þetta Brynjar. Ég bara táraðist. Þarna er fallegi afi minn Torfi sem dó 1949, ljóslifandi á filmu. Ég hef aldrei séð hann áður á kvikmynd. Bræður hans afa, Dr. Kristinn og Sigfreður eru þarna líka og ættin hennar mömmu eins og hún leggur sig. Konan sem stendur með arm hermanns um axlir heitir Sigþrúður. Mamma sagði mér að hann hefði verið svolítið skotinn í henni. Ég verð að skjótast í dag til mömmu og pabba og leyfa þeim að sjá.

Eftir að Anna Kristín hafði sýnt foreldrum sínum myndbandið seinna þennan sama dag og rætt við þau um fræga ljósmynd sem minnst var á í greininni á undan, fékk ég skilaboð frá henni.

Meira um það á www.grenndargral.is.

VG

UMMÆLI