Þórsarar gerðu góða ferð til Njarðvíkur í kvöld þegar liðin mættust í Dominos-deild karla í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Þórsarar unnu öruggan ellefu stiga sigur, 94-105 en þetta er í fyrsta skipti í 27 ár sem Þórsarar vinna sigur í Njarðvík.
Þórsarar höfðu undirtökin í leiknum frá upphafi til enda en staðan eftir fyrsta leikhluta var 26-29. Gestirnir héldu áfram að auka forskotið og unnu að lokum góðan sigur.
Gamla brýnið Darrel Lewis var stigahæstur með 25 stig auk þess að taka sjö fráköst og gefa fimm stoðsendingar. Þröstur Leó Jóhannsson átti frábæra innkomu af bekknum en hann endar leikinn með 19 stig og algjörlega frábæra skotnýtingu en hann hitti úr átta af tíu skotum sínum í leiknum.
Þetta var þriðji sigur Þórsara í röð og er liðið nú komið með tíu stig í fimmta sæti deildarinnar.
Stigaskor Þórs: Darrel Keith Lewis 25, Þröstur Leó Jóhannsson 19, George Beamon 18, Danero Thomas 17, Tryggvi Snær Hlinason 13, Ragnar Helgi Friðriksson 7, Ingvi Rafn Ingvarsson 6.
Stigaskor Njarðvíkur: Jeremy Martez Atkinson 31, Björn Kristjánsson 21, Logi Gunnarsson 17, Johann Arni Ólafsson 12, Hilmar Hafsteinsson 5, Jón Arnór Sverrisson 4, Adam Eiður Ásgeirsson 2, Páll Kristinsson 2.
Það er skammt stórra höggva á milli hjá strákunum því liðið mætir Tindastól í 16-liða úrslitum Maltbikarsins næstkomandi sunnudag. Leikurinn fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri og hefst klukkan 17:00.
UMMÆLI