Sjónvarpsstöðin N4 mun næstkomandi sunnudag frumsýna þátt um nýtt fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík. Fiskvinnsluhúsið þykir eitt það fullkomnasta í heimi.
Á vef N4 segir að húsið sé um 9.000 fermetrar og að kostnaðurinn hafi verið um sex milljarða króna. Áhersla sé lögð á íslenskar tæknilausnir og íslenskan vélbúnað.
María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4, segir að N4 hafi fengið hugmyndina að þættinum og kynnt hana fyrir stjórnendum Samherja sem tóku vel í hana.
„Ekki síst vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í þjóðfélaginu vegna Covid 19 og lítilla tækifæra fyrir almenning til að skoða nýja fiskvinnsluverið,“ segir María.
Ritstjórn á þættinum er alfarið í höndum N4 en Samherji greiðir hluta af framleiðslukostnaði og er það tekið skýrt fram í bæði upphafi og lok þáttar. Þá hafa fjölmargir aðilar keypt auglýsingar í kringum þáttinn að sögn Maríu.
Þátturinn Hátækni í sjávarútvegi verður sýndur á N4 á sunnudag en hér að neðan má sjá stiklu fyrir þáttinn.