Akureyri og ÍBV skildu jöfn í lokaleik 12.umferðar Olís-deildar karla í KA-heimilinu en leiknum lauk nú rétt í þessu. Lokatölur 24-24 eftir æsilegar lokamínútur.
Eyjamenn hafa á öflugu liði að skipa og höfðu yfirhöndina framan af. Heimamönnum tókst svo að vinna sig inn í leikinn og náðu frumkvæðinu í síðari hálfleik. Að lokum þurftu liðin að skiptast á jafnan hlut sem verður líklega að teljast sanngjörn úrslit.
Það má segja að leikurinn hafi snúist upp í einvígi tveggja frábærra hægri hornamanna því þeir Kristján Orri Jóhannsson, Akureyri og Theodór Sigurbjörnsson, ÍBV, voru einfaldlega í allt öðrum gæðaflokki en aðrir leikmenn vallarins í dag.
Sóknarleikur beggja liða var frekar slakur ef horft er framhjá þessum tveim leikmönnum. Mikið var um tapaða bolta og léleg skot nema þegar þeir Kristján og Theodór áttu í hlut en Kristján Orri skoraði 13 af 24 mörkum Akureyrar og Theodór 12 af 24 mörkum ÍBV.
Fjórði leikur Akureyrar í röð án taps en liðið er eftir sem áður í neðsta sæti deildarinnar, nú með átta stig.
Markaskorarar Akureyrar: Kristján Orri Jóhannsson 13, Karolis Stropus 5, Igor Kopyshynskyi 3, Garðar Már Jónsson 1, Arnór Þorri Þorsteinsson 1, Mindaugas Dumcius 1.
Tomas Olason varði 14 skot í marki Akureyrar.
Markaskorarar ÍBV: Theodór Sigurbjörnsson 12, Sigurbergur Sveinsson 4, Ágúst Emil Grétarsson 2, Dagur Arnarsson 2, Friðrik Jónsson 1, Kári Kristján Kristjánsson 1, Magnús Stefánsson 1, Grétar Þór Eyþórsson 1.
Kolbeinn Arnarson varði 7 skot í marki ÍBV og Andri Ísak Sigfússon eitt.
UMMÆLI