Vatnið, gríman og geltið er fyrsta bók geðsjúklingsins Silju Bjarkar Björnsdóttur sem lengi hefur barist fyrir bættri geðheilsu og upprætingu fordóma á Íslandi. Vatnið, gríman og geltið er grípandi frásögn konu á þrítugsaldri sem veikist af þunglyndi, reynir sjálfsvíg og endar á geðdeild í kjölfarið.
Sagan er nokkursonar ævisaga en hún byggir á lífi höfundar, þó tekin séu nokkur skáldaleyfi. Bókin fjallar um geðveiki, þunglyndi, sjálfsvígshugsanir og batann. Silja Björk greindist með þunglyndi í kringum tvítugt en þá hafði hún nú þegar glímt við áfallastreituröskun og afleiðingar bílslyss í þrjú ár.
Sjá einnig: „Með því að hugsa jákvætt og líta á björtu hliðarnar þá getur maður tekist á við ýmislegt“
Annt um málefni geðheilsu og geðsjúklinga
Silja Björk hefur síðan þá verið ötul talskona í baráttunni um upprætingu fordóma í garð geðsjúkra, einna helst vegna þess að hún var sjálf með fordóma. Hún skrifaði sína fyrstu grein, Þunglyndi er líka sjúkdómur og birti á vefritinu Freyjur árið 2013.
Pistillinn fékk mikla athygli og var dreift á helstu fjölmiðlum landsins. Þá var ekki aftur snúið og síðan þá hefur Silja Björk skrifað fjölda greina um málefni geðheilsu og geðsjúklinga, flutt fyrirlestra í skólum, fyrirtækjum og á TEDx ráðstefnu í Hörpu árið 2014.
Árið 2015 stofnaði Silja Björk til samfélagsmiðlabyltingarinnar #égerekkitabú ásamt þeim Töru Tjörvadóttur og Bryndísi Sæunni S. Gunnlaugsdóttur. Í gegnum #égerekkitabú gat fólk deilt sögum af sínum geðveikindum á samfélgsmiðlum og út frá byltingunni varð til Facebook-samfélagið GEÐSJÚK sem er enn virkt í dag.
Órjúfanlegur partur af bataferlinu
Vatnið, gríman og geltið er fyrsta bók Silju Bjarkar en hana hafði lengi dreymt um að verða rithöfundur. Bókin er ævisöguleg yfirferð á veikindum og bata Silju Bjarkar, en höfundur kallar hana „sjálfsæviskeiðssögu“ þar sem hún fjallar um tímabil í lífi höfundar.
„Bókin er byggð á dagbókarskrifum sem ég hóf eftir veru mína á geðdeild sumarið 2013. Fyrst um sinn var þetta bara mín leið til að átta mig á hlutunum og vinna úr sársaukanum en svo hélt ég bara áfram með þetta þangað til rúmlega tveimur árum síðar, þegar ég hugsaði með mér bara, af hverju skrifarðu ekki bara bók um þetta?“ segir Silja Björk í samtali við Kaffið.
Sjá einnig: „Ekki inn í myndinni að glöð og vel gefin stelpa eins og ég gæti verið þunglynd”
„Þessi bók hefur því verið rúm sjö ár í vinnslu, frekar langt og erfitt ferli en þessi skrif hafa verið órjúfanlegur partur af mínu bataferli. Það hefur reynst mér ótrúlega góður lærdómur að eyða svona miklum tíma með þessum texta og þessari sögu, sjá þessa ungu konu í allt öðru ljósi eftir öll þessi ár.“
Þetta hefur líka verið ómetanlegur bati fyrir fjölskyldu Silju Bjarkar og vini.
„Árið 2016 var ég svo heppin að fá að taka þátt í sjónvarpsþáttunum Bara geðveik með Lóu Pind og Stöð 2. Í einum þættinum, sem tileinkaður er sjálfsvígstilraun minni og þessu fárveika sumri árið 2013, fengum við fjölskyldan tækifæri að setjast niður og ræða þennan dag og þetta sumar saman í fyrsta skiptið. Það var fyrir framan myndavélar, sem er ótrúlega skrítið en var heilandi og gott fyrir mig, foreldra mína og systur. Þau hafa lesið bókina og verið með mér í þessu ferli, sem hefur hjálpað þeim að skilja betur þessa stelpu og hennar sögu.“
Safnaði sjálf fyrir útgáfunni
Silja Björk reyndi að fara með bókina til útgefenda en fann oft fyrir því að útgefendur vildu breyta sögunni of mikið. Þá ákvað Silja Björk að láta slag standa og hópfjármagnaði hún bókina í gegnum Karolina Fund síðasta sumar.
„Það var ótrúlegur árangur, á innan við viku náði ég 100% söfnun sem var rúmlega hálf milljón. Þegar söfnunni lauk hafði ég safnað 135% af markmiðinu mínu og fór allur peningurinn í eftirvinnslu bókarinnar, prentið og markaðssetninguna. Það var mjög fallegt að sjá allt þetta góða fólk styrkja mig og þetta málefni og stórkostlegt að ná 100% söfnun á svona stuttum tíma! Ég verð ævinlega þakklát fyrir það.“
Silja Björk hefur svo verið að vinna í því að keyra út forsölueintök bókarinnar bæði á höfuðborgarsvæðinu og í heimabæ sínum Akureyri. Hún áritaði hvert einasta forsölueintak, um 200 bækur, persónulega og segist vera öllum þeim sem keyptu bókina og studdu þennna draum hennar þakklát.
„Það er óheyrilega góð tilfinning að upplifa það að draumar mínir séu að rætast. Ég er orðin rithöfundur og get núna titlað mig sem slíkan! Það er góð tilfinning, að sjá þessa erfiðu lífsreynslu ekki aðeins hjálpa mér heldur fullt af öðru fólki sem er að eiga við svipaða sjúkdóma.“
Baráttan ekki búin
Silja Björk heldur baráttunni áfram en hún situr í stjórn Geðhjálpar og er fulltrúi félagsins í Velferðarvakt Alþingis. Hún segist hvergi nærri hætt að berjast fyrir bættum hag geðsjúkra á Íslandi og segir alla umræðu vera mikilvæga.
„Þetta er ekki flókið. Við erum öll með líkamlega heilsu og við erum öll með geðheilsu. Fordómar fyrir geðveiku fólki eiga ekki að líðast, vegna þess að það á ekki að mismuna fólki sem er veikt. Samfélagið myndi aldrei voga sér að að uppnefna krabbameinssjúka athyglissjúka aumingja en samt erum við alltaf svo tilbúin að dæma geðsjúkt fólk?“
Silja Björk segir þá þróun hættulega og að geðsjúklingar séu sjaldnast birtingarmyndir þeirra staðalímynda sem þekkjast. Hún hafi sjálf t.d. aldrei séð spennitreyju eða verið færð í bólstraðan klefa og langflestir geðsjúklingar sem hún þekki séu hvorki skaðlegir öðrum né sjálfum sér. Hún segir að víða sé pottur brotin í íslensku samfélagi, bæði í heilbrigðiskerfinu, skólakerfinu og samfélaginu en hún ræðir þessi vandamál í bókinni.
„Kerfin sem áttu að vera til staðar brugðust mér trekk í trekk. Ef ekki væri fyrir fjölskylduna mína og vini mína þá væri ég dáin. Kerfin gerðu ekkert til þess að bjarga mér. Það er ótrúlega sorglegt en þetta er saga margra og það væri hægt að koma í veg fyrir svo mörg dauðsföll, svo marga öryrkja og geðsjúklinga, ef betur væri hlúað að okkur í kerfunum og af samfélaginu.“
Bókin hennar, Vatnið, gríman og geltið er í senn átakanleg en áhrifarík saga þunglyndis og geðsýki og segir höfundur slíkar sögur alltaf eiga vel við.
„Ég er svo þakklát á hverjum einasta degi fyrir að vera á lífi, það er gjöf að fá að anda, ganga, kyssa og faðma. Ég er þakklát fyrir það að geta unnið úr mínum sjúkdómi í gegnum þessi skrif og það er draumur minn að fólk lesi hana, ekki bara fyrir mig, heldur fyrir sjálft sig til þess að skilja betur heim geðsjúklinganna. Við erum öll í þessu saman, miklu meira nú en áður, og það er mikilvægt að við opnum hug okkar og hjörtu fyrir allri mannflórunni.“
Mynd með grein: Kápuhönnun eftir Lilju Kristínu Svavarsdóttur og ljósmyndir eftir Sunnu Ben.
UMMÆLI