Það er fátt sem fær stöðvað íshokkílið Skautafélags Akureyrar þessa dagana en bæði karlar og konur voru í eldlínunni í dag og vann SA tvo sannfærandi sigra.
Í Skautahöllinni á Akureyri tóku Ynjur á móti SR í Hertz deild kvenna. Ynjur hafa unnið alla sína leiki í vetur og það var snemma ljóst að það væri ekki að fara að breytast í dag. Hilma Bergsdóttir kom Ynjum yfir eftir aðeins eina og hálfa mínútu og eftir tíu mínútna leik var staðan orðin 4-0. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrsta leikhluta.
Yfirbyrðir Ynja héldu áfram í öðrum leikhluta en að honum loknum var staðan orðin 8-1. Ynjur slökuðu ekki á klónni og unnu að lokum tíu marka sigur, 12-2.
Markaskorarar Ynja: Berglind Leifsdóttir 3, Silvía Björgvinsdóttir 3, Kolbrún Garðarsdóttir 2, Hilma Bergsdóttir 1, April Orongan 1, Saga Sigurðardóttir 1, Sunna Björgvinsdóttir 1.
Markaskorarar SR: Alexandra Hafsteinsdóttir 2.
Í Egilshöll í Reykjavík var SA í heimsókn hjá Birninum í Hertz deild karla.
Andri Mikaelsson kom SA yfir snemma leiks og Mikka Salonen sá til þess að SA ynni fyrsta leikhlutann með tveim mörkum gegn engu.
SA gekk svo algjörlega frá leiknum í öðrum leikhluta sem vannst með fjórum mörkum gegn engu. Gestirnir slökuðu svo aðeins á í síðasta leikhlutanum og fór hann 1-0 fyrir Birninum. Lokatölur 1-6 fyrir SA sem eiga aftur leik á morgun þegar þeir mæta SR í Skautahöllinni í Laugardal.
Markaskorarar SA: Mikko Salonen 2, Andri Mikaelsson 1, Ingvar Þór Jónsson 1, Jussi Sipponen 1, Jóhann Már Leifsson 1.
Markaskorari Bjarnarins: Ingþór Árnason 1.
UMMÆLI