Starfsmaður Landsnets sem var við vinnu í tengivirkinu á Rangárvöllum þegar skammhlaup varð þar í gær var útskrifaður af sjúkrahúsi í dag. Samkvæmt tilkynningu frá Landsneti er hann við góða heilsu.
Minniháttar skemmdir urðu á búnaði tengivirkisins en landsnet hefur hafið úttekt á víðtæku rafmagnsleysi sem varð á Eyjafjarðarsvæðinu í gær.
Rafmagnsleysið varði frá um klukkan ellefu þar til tókst að koma rafmagni á til allra notenda milli korter yfir eitt og hálf tvö.
Rafmagnsleysið var víðtækt, en Akureyri og nágrannabæjarfélög og -sveitir voru án rafmagns þennan tíma.
Hreinsun og viðgerð er lokið. Landsnet segir í tilkynningu að nú verði gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir atvik eins og þetta.