beint flug til Færeyja

Um gömul föt og minningar

Um gömul föt og minningar

Ég hef verið upptekin nú í sumarhretinu að hreinsa til í fataskápnum mínum og komist að því að það er býsna margt líkt með fötum og gömlum minningum. Á sama hátt og það er erfitt að koma sér að verki með að byrja að vinna sig í gegnum skúffur og hillur, getur verið ótrúlega erfitt að fara yfir gamlar minningar og hreinsa til í tilfinningunum sem þeim fylgja. Því alveg eins og föt sem maður setur innst í fataskápinn, sitja minningar um kyrrt í undirvitundinni, þangað til að maður opnar upp á gátt, hleypir birtunni og skoðar það sem fyrir er.

Það sem er efst í hillum og skúffum er jú það sem oftast er notað, er nýlegt, ferskt og spennandi og gaman að spóka sig í slíkum flíkum. Sumt lendir reyndar aftast þótt það sé nýlegt en það eru flíkurnar sem maður hafði ekki fyrir því að máta almennilega eða lét freistast þótt þær pössuðu ekki alveg og væru ekki þægilegar.

Það er líka það sem maður gerir við önnur vonbrigði lífsins, maður lokar þau í hugarfylgsnunum og oft dugar það í ákveðinn tíma,- erfiðleikarnir gleymast, minningar dofna og fyrnast. Þær minna á sig af og til eins og óljós verkur en það er of sársaukafullt að skoða þær. Og alveg eins og með flíkurnar þá er oft um að ræða minningar um fólk og tilveru sem passaði okkur aldrei og voru sannarlega ekki þægilegar.

En hver vill sitja uppi með fataskáp fullan af gömlum rykugum flíkum sem engum passa? Sem fara að lykta af innilokun og menga þannig það sem gott er í skápnum. Það sem við viljum nota daglega, er vandað og okkur líður vel með.

Nei út með draslið, það er hægt að gefa föt í Rauða krossinn eða Hertex, eitthvað sem ekki er hægt að gera með minningar, -kannski sem betur fer. En það er hægt að taka upp minningar eins og gamla kápu og skó, skoða og rifja upp hvað það var sem olli því að þær pössuðu ekki og láta þær svo hverfa með öðru rusli.

Við erum nefnilega ekki dæmd til að sitja uppi með slæmar minningar. Stundum rifjast upp að hlutirnir voru alls ekki eins slæmir og okkur minnti og við getum endurskoðað tilfinningar sem þeim tengjast. Við getum fyrirgefið okkur sjálfum og öðrum og mildað þannig gömul sárindi og við getum jafnvel skilað skömminni til þeirra sem hafa unnið okkur mein og þannig hætt að sitja uppi með skammartilfinninguna í eigin barmi.

Forsendan er samt sú að fara í það erfiða og oft leiðinlega verkefni að skoða sjálfan sig á sama hátt og við skoðum í fataskápinn. Ekki fresta því of lengi, manni líður svo miklu betur þegar það er búið.

Við eigum skilið það sem gott er, föt sem okkur líður vel með, eru framleidd á sjálfbæran máta, fara okkur vel, eru þægileg og kosta ekki of mikið.

Við eigum líka skilið að okkur líði vel í sálinni, að við þekkjum tilfinningar okkar og minningarnar sem þær tengjast, könnumst við þær og náum sátt við okkur sjálf og tilveruna.

Góða og gleðilega tiltekt.

VG

UMMÆLI

Sambíó