KA varð Orkumótsmeistari í fótbolta í ár. Orkumótið er haldið árlega í Vestmannaeyjum. Mótið hefur verið haldið ár hvert frá því að það var fyrst haldið árið 1984. Á mótinu keppir 6. flokkur karla í knattspyrnu. Mótið fór fram dagana 25.-27. júní í ár.
„KA menn sigruðu lið HK í ótrúlega spennandi og dramatískum leik á Hásteinsvelli í dag. HK menn sóttu lengstum meira en tókst ekki að skora frekar en KA mönnum í venjulegum leiktíma. Framlengja varð því leikinn um 2 x 5 mínútur og þegar um 10 sekúndur lifðu af síðari hálfleik framlengingarinnar slapp Ágúst Már Þorvaldsson einn í gegn fyrir KA og tryggðI KA 1-0 sigur. Tíminn var það naumur að HK menn gátu ekki einu sinni tekið miðju.. Við óskum KA mönnum til hamingju með sigurinn og HK með árangurinn en þeir léku líkt og KA geysivel á mótinu,“ segir í umfjöllun um úrslitaleikinn á vef Orkumótsins.
KA sigraði HK í úrslitaleik mótsins með marki í lok framlengingar. Sætur sigur KA manna. Hegðun KA piltanna eftir sigurinn hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum en myndir náðust af þeim að hughreysta mótherja sína eftir að dómarinn flautaði leikinn af.
Sannarlega til fyrirmyndar hjá þessum ungu og efnilegum knattspyrnumönnum. Til hamingju með sigurinn KA menn!
UMMÆLI