Þessa dagana vinnur Sagnalist – skráning og miðlun sf. að gerð útvarpsþáttar sem byggður er á bók Brynjars Karls Óttarssonar Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli. Á vef Grenndargralsins segir að nú sé verið að leggja lokahönd á gerð útvarpsþáttarins.
Grenndargralið gaf bókina Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli út árið 2017 í tilefni af 90 ára afmæli Kristnesspítala. Þátturinn er unninn í samvinnu við RÚV og Hælið-setur um sögu berklanna.
Sjá einnig: Kristnesspítali fékk góðar gjafir á 90 ára afmælinu
„Á annan tug starfsmanna koma að gerð þáttarins, leikarar, sögumenn og stjórnendur. Allir leikarar hafa nú skilað sínu. Dagskrárgerðarfólk notar næstu daga til að klippa, fínpússa og ganga frá lausum endum svo senda megi þáttinn út þann 21. maí næstkomandi. Umsjón með þættinum hefur Brynjar Karl. Gígja Hólmgeirsdóttir aðstoðar við dagskrárgerð,“ segir í tilkynningu á vef Grenndargralsins.
Kristneshæli – musteri lífs og dauða er á dagskrá Rásar 1 á uppstigningardag.
UMMÆLI