Bæjarstjórn Akureyrar stendur nú fyrir kynningu á breytingu á Aðalskipulagi bæjarins sem felur í sér tækifæri fyrir verktakafyrirtækið SS byggir að byggja allt að 8 hæða fjölbýlishús á suð-austur horni Oddeyrarinnar.
Hugmyndin er alveg frábær – fyrir verktakann. Það er ljóst að íbúðir á efri hæðum verða gríðarlega eftirsóttar enda útsýnið með eindæmum, svo það er til mikils að vinna fyrir eigendur SS byggis sem ekki ber nein skylda til að hugsa um hagsmuni þeirra íbúa sem í staðinn missa útsýnið.
Málið er heldur snúnara fyrir bæjaryfirvöld því þeim ber skylda til að horfa til hagsmuna allra íbúa samfélagsins, skammtíma og langtíma. Þetta hefur svo sannarlega verið uppfyllt í nýja aðalskipulaginu okkar sem samþykkt var rétt fyrir kosningar 2018. Það var unnið í miklu samráði við bæjarbúa, fjöldi samráðsfunda var haldinn, við íbúa sem og ýmis félagasamtök og stofnanir í bænum. Þar er kveðið á um að byggingar á Oddeyri séu ekki hærri en fjórar hæðir en þó er opnuð glufa fyrir stærri hugmyndir því fram kemur að einstaka byggingar geti verið hærri og virkað sem kennileiti í bænum.
Nú er semsagt spurning hvort Akureyringar vilja að SS byggir búi til nýja kennileiti bæjarins. Næstu Akureyrarkirkju. Næsta Hof. Í formi háhýsabyggingar á suð-austur horni bæjarsins sem mun blasa vel við allri umferð inn í bæinn sunnan að og ekki síst þeim sem koma og fara sjóleiðina.
Skipulagsstofnun hefur gert athugasemdir við breytinguna. Stofnunin telur bæjaryfirvöld ekki hafa fært fram rök um hvaða þörf liggi að baki uppbyggingunni, hvernig breytingin falli að stefnu bæjarins, hvernig lagt verði mat á áhrif breytingarinnar, hvaða aðrir valkostir um þróun svæðisins séu og hvaða áhrif uppbyggingin hafi á aðra byggð. Einnig gerir stofnunin athugasemdir við að ekki sé haft nema lágmarkssamráð við íbúana um þessar viðamiklu breytingar. Með öðrum orðum bendir Skipulagsstofnun Akureyrarbæ á að sem stjórnvald eigi bærinn að gera slíkar breytingar í samráði við íbúa frekar en í einkasamtali við byggingaraðilann.
Ég er þakklát Skipulagsstofnun fyrir ábendingarnar og vona af öllu hjarta að bæjaryfirvöld átti sig á því hversu mikilvægt það er að eiga samtal við íbúana um uppbyggingu og ásýnd bæjarins.
Það getur verið snúið að átta sig á því hvort maður er á réttri leið og jafnvel enn erfiðara að spyrja til vegar. Þess vegna vil ég hvetja íbúa Akureyrar til að láta heyra í sér og hvetja bæjaryfirvöld til að hægja á sér og eiga samráð við íbúa um næsta kennileiti bæjarins. Kannski er fólk mjög spennt fyrir að það verði einmitt svona. Kannski ekki. Það er á ábyrgð bæjarstjórnar að komast að því.
Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG á Akureyri
UMMÆLI