Elín H. Gísladóttir, forstöðukona Sundlaugarinnar á Akureyri segir að það sé snilld að geta nýtt tímann sem hefur gefist vegna Covid-19 faraldursins í framkvæmdir við sundlaugina. Hún vonast þó til þess að sundlaugin geti fljótlega opnað á nýjan leik. Þetta kemur fram í viðtali á mbl.is.
Sjá einnig: Sérbúningsklefi og klefi fyrir fatlað fólk í Sundlaug Akureyrar
Framkvæmdir á búningsklefum eru nú í fullum gangi og allir starfsmenn laugarinnar hafa haldið vinnu sinni. Tekjuhrunið í sundlauginni er mikið en sveitarfélög bera kostnaðinn í stað þess að senda fólk á hlutabætur.
Elín segir í samtali við mbl.is að það sé tómlegt í sundlauginni án gestanna og að þeirra sé sárt saknað.
„Við söknum mjög gestanna og þess að hitta ekki fastakúnnana. Það verður gaman þegar við opnum og förum að fá fólkið okkar í heimsókn aftur,“ segir Elín.
Það verður þó einhver bið áfram í að sundlaugar opni en þær opna ekki aftur 4. maí eins og ýmis önnur þjónusta. Elín hefur trú á að það verði hægt að opna á nýjan leik þegar næst er slakað á klónni.
„Ég trúi varla öðru en að við verðum í þeim pakka. Þegar Íslendingar fara í sumarleyfi og geti ferðast aðeins um landið, að þá geti þeir farið í sundlaugarnar.“
UMMÆLI