Þeir Haukur Sindri Karlsson og Atli Dagur Stefánsson, sem mynda tónlistar-tvíeykið Azpect, sendu í dag frá sér lagið Let You Down ásamt tónlistarmanninum Ouse.
Haukur og Atli, sem ólust upp saman á Norðurlandi, hittust í Kaupmannahöfn í byrjun árs og byrjuðu að semja lög. Haukur er um þessar mundir búsettur í Kaupmannahöfn þar sem hann stundar nám við RMC tónlistarháskólann.
„Síðan þá höfum verið að vinna að nýrri tónlist í gegnum netið í sitthvoru landinu og hefur það gengið mjög vel hingað til. Við höfum gefið út þrjú lög á Spotify, og munum við gefa út tónlist með reglulegu millibili næstu vikur,“ segir Haukur Sindri í spjalli við Kaffið.
Lagið Let You Down hefur verið í bígerð undanfarna mánuði. Einar Jónatansson, yngri bróðir Hauks, smíðaði grunninn af laginu og Haukur vann svo með hann þar til að hann og Atli kláruðu lagið í heimsókn Atla til Kaupannahafnar. Þeir skildu svo eftir eitt vers fyrir Ásgeir Braga eða Ouse, sem var meira en til í að taka þátt.
„Við Atli erum æskuvinir og okkur hefur alltaf langað til að gera tónlist saman. Ég er prodúser og hann er söngvari, en við að sjálfsögðu semjum allt í sameiningu.“
Hlustaðu á lagið hér að neðan
UMMÆLI