NTC

Garður og Kaffi Kú fengu landbúnaðarverðlaunin 2020F.v: Ásdís Einarsdóttir, Aðalsteinn Hallgrímsson, Sesselja Barðdal og Kristján Þór Júlíusson. Mynd: Bændablaðið.

Garður og Kaffi Kú fengu landbúnaðarverðlaunin 2020

Landbúnaðarverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á setningu Búnaðarþings 2020. Að þessu sinni komu þau í hlut garðyrkjustöðvarinnar Espiflatar í Reykholti í Biskupstungum og kúabúsins Garðs í Eyjafirði, þar sem veitingastaðurinn Kaffi Kú er einnig rekinn. Bændablaðið greinir frá.

Ráðherra landbúnaðarmála hefur veitt landbúnaðarverðlaun frá árinu 1997 en hugmyndin að baki verðlaununum er að veita bændum og býlum sem á einn eða annan máta vekja athygli og eru til fyrirmyndar í íslenskum landbúnaði, viðurkenningar og hvatningarverðlaun.

Garður byggt sem nýbýli

Garður í Eyjafirði var byggt sem nýbýli af Hallgrími Aðalsteinssyni og Magneu Garðarsdóttur árið 1955. Fyrst var byggt íbúðarhús og síðan fjós og hlaða. „Engin tún voru á landinu og var ráðist í að brjóta land og rækta tún. Strax var hafist handa við að stækka bústofninn, kúnum fjölgað og útbúin aðstaða fyrir kindur í hlöðu. Árið 1980 tóku synir þeirra, Aðalsteinn og Garðar Hallgrímssynir og fjölskyldur þeirra við búinu. Þeir unnu að frekari uppbyggingu á bænum, fjölguðu nautgripum og buðu upp á landbúnaðarverktöku fyrir bændur í Eyjafirði. Auk þess hefur töluverð kornrækt verið stunduð á bænum í fjölda ára og snemma var byrjað á kartöflurækt,“ segir í umsögninni um Garð.

Kýrnar liggja á dýnum, fara í nudd og láta mjólka sig þegar þær vilja

Árið 2007 var tekið í notkun nýtt og glæsilegt lausagöngufjós sem er 2.100 fermetrar að stærð og búið mikilli tækni. Um leið og fjósið var reist vakti það mikla athygli bæði fyrir að vera stærsta fjósabygging landsins og sú tæknivæddasta. Aðstaða í fjósinu er til fyrirmyndar og má nefna að dýralæknakostnaður hefur snarlækkað, dýrunum líður vel og vinnuaðstæður eru góðar.

Í umsögninni segir m.a.: ,,Árið 2011 var opnað kaffihús sem heitir Kaffi Kú í á fjósaloftinu. Sonur Aðalsteins, Einar Örn og kona hans Sesselja Barðdal, reka veitingastaðinn. Kaffi Kú tekur 60 manns í sæti og þar er hægt að fylgjast með 300 kúm og kálfum í afslöppuðu umhverfi þar sem kýrnar liggja á dýnum, fara í nudd og láta mjólka sig þegar þær vilja. Þannig gefst gestum tækifæri til að kynna sér störf bóndans og hvernig mjólkurframleiðslan fer fram í fullkomlega sjálfvirku fjósi. Árið 2019 heimsóttu 30.000 gestir Kaffi Kú.

Á Garði er rekin fyrirmyndarstarfsemi þar sem tækniþróun hefur verið nýtt í því augnamiði að auka verðmætasköpun og bæta velferð dýra. Þá hafa bændur á Garði gefið almenningi gott tækifæri til að kynnast betur íslenskum landbúnaði,“ segir ennfremur í umsögninni.

VG

UMMÆLI

Sambíó