Iceland Winter Games vetrarhátíðin verður haldin á Akureyri dagana 20. til 22. mars næstkomandi en um alþjóðlega vetraríþróttahátíð er að ræða.
Iceland Winter Games er þriggja daga vetrar- og útivistarhátíð sem haldin er á Akureyri í sjötta sinn í ár. Hátíðin er svo sannarlega búin að festa sig í sessi, jafnt hjá bæjarbúum sem og innlendum og erlendum áhugamönnum um vetraríþróttir.
Aðalviðburður leikanna í ár verður keppni á snjóskautum, en keppt verður í þrem greinum innan þess; Bonefight, Freestyle og Red Bull run. Bonefight keppnin er liður í heimsmeistaramóti á snjóskautum og eins og staðan er í stigagjöfinni í dag er mjög líklegt að það verði slagur á milli Akureyringa um heimsmeistaratitilinn í kvennaflokki en þær Katrín Karítas Viðarsdóttir og Laufey Anna Egilsdóttir eiga báðar mikla möguleika á titlinum. Ef svo verður gæti Ísland orðið fyrsta landið til þess að eiga heimsmeistara í öllum flokkum á snjóskautum. Fyrir eiga Akureyringar tvo fyrrum heimsmeistara Ísak Andra Bjarnason, árið 2018 í Bonefight og Inga Frey Sveinbjörnsson sem var þrefaldur heimsmeistari í Freestyle árin 2015, 2016 og 2017.
Vélsleðaspyrna Ey-Lív verður á sínum stað í Hlíðarfjalli þar sem allir flottustu vélsleðar landsins verða saman komnir í spyrnukeppni. Einnig verður Fjórkrossmót Hjólreiðafélags Akureyrar haldið í Hlíðarfjalli og verða þar samankomnir allir helstu fjallahjólarar landsins.
Nýjung í ár verður fjölskyldudagur í Kjarnaskógi á sunnudeginum. Meðal viðburða verða snjókarlakeppni, rafmagnshjólakynning og samhjól, gönguskíðakynning og skíðaskotfimi, brauðbakstur og poppað yfir eldi og skátarnir verða með kynningu á sínu starfi og viðburði.
Á Glerártorgi fer svo fram vetrartækjasýning í tengslum við hátíðina þar sem gestir og gangandi geta virt fyrir sér gömul og ný tæki í heimi vetrarútivistar.
UMMÆLI