Söngleikurinn Vorið Vaknar var frumsýndur föstudaginn 31. janúar hjá Leikfélagi Akureyrar, en þetta er í fyrsta sinn sem verkið er sett upp í atvinnuleikhúsi hér á landi. Sýningin hefur fengið góða dóma.
Leikhúsgagnrýnandinn Brynhildur Björnsdóttir fór yfir verkið í Menningunni á RÚV. Brynhildur sagði að það væri skemmtileg tilbreyting að sjá Vorið Vaknar á sviði á Íslandi.
Hún segir að það hafi verið djarft val hjá Leikfélagi Akureyrar að takast á við verkefnið og hún bætir því við að verkefnið hafi klárlega heppnast vel.
„Leikstjórnin er góð og uppsetningin finnst mér fín. Ég var hrifin af þessari sýningu,“ segir hún. Umfjöllunina má sjá í heild sinni með því að smella hér.
Hrönn Björgvinsdóttir, verkefnastjóri ungmennastarfs á Amtsbókasafninu skrifaði um leikritið í Vikudegi. Hún segir Vorið Vaknar vera óð til lífsneistans sem býr í ungu fólki.
„Þrátt fyrir að sögusviðið sé fjarri okkur í tíma á boðskapur verksins vel við í dag og ærin ástæða til þess að sjá það. Jafnvel þó einhverjir kunni að vera ósammála þessu pólitíska rétttrúnaðarrausi mínu hér að ofan, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að hér, í 19.000 manna bæjarfélagi, höfum við tækifæri til þess að sjá ótrúlega metnaðarfulla og glæsilega uppfærslu á margverðlunuðum söngleik, það eitt og sér er næg ástæða til að grípa tækifærið,“ skrifar Hrönn en umfjöllun hennar má lesa í heild sinni hér.
Sverrir Páll Erlendsson, skrifar á Facebook síðu sinni að hann haldi að Vorið Vaknar sé einhver besta leiksýning sem hann hafi séð hjá Leikfélagi Akureyrar lengi.
„Hrífandi uppsetning, ungir og ferskir flinkir leikendur sem léku, sungu og dönsuðu alveg prýðilega,“ skrifar hann.
Vorið Vaknar verður sýndur í Samkomuhúsinu til 7. mars en hægt er að sjá dagsetningar sýninga og kaupa miða með því að smella hér.
UMMÆLI