Telur Akureyrarbæ ekki hafa farið að lögum við ráðningu í starf hjá AkureyrarstofuMynd: Akureyri.is

Telur Akureyrarbæ ekki hafa farið að lögum við ráðningu í starf hjá Akureyrarstofu

Umboðsmaður lauk nýverið máli þar sem hann taldi Akureyrarbæ ekki hafa farið að lögum þegar ráðning í starf Verkefnastjóra hjá Akureyrarstofu var afturkölluð. Búið var að tilkynna konu munnlega að hún fengi starfið, þar sem hún var metin hæfust umsækjenda, sem hún hafði þá og þegar þegið. Síðan var sú ráðning afturkölluð og annar aðili ráðinn í starfið.

Ástæðu þess segir Akureyrarbær vera að hún hafi ekki lokið BA eða BS-prófi frá háskóla sem var krafa þess að fá starfið. Hins vegar í auglýsingu um starfið var aðeins háskólapróf eitt þeirra skilyrða sem umsækjendur þurftu að uppfylla. Hvergi var tekið fram að BA eða BS gráða væru skilyrði en konan sem um ræðir hefur þegar lokið 2ja ára prófi í blaðamennsku frá háskóla í Noregi og eins árs grunnámi í íslensku við Háskóla Íslands.

Ekki gefið til kynna að bakkalárspróf væri krafan

Í tilkynningu frá Umboðsmanni Alþingis um málið segir að orðalag auglýsingar um starfið hefði ekki gefið ótvírætt til kynna að krafist væri að lágmarki bakkalárprófs. Eins yrði ekki séð að þetta skilyrði um bakkalárpróf hefði komið sérstaklega til skoðunar við heildarmat á umsækjendum, þar sem viðkomandi hafði verið metin hæfust. Umboðsmaður telur að Akureyrarbær sé bundinn af því orðalagi sem var í auglýsingunni og geti ekki breytt hæfniskröfum eftir á. Þá telur umboðsmaður að sveitarfélagið hefði ekki sýnt fram á að skilyrði til að afturkalla ráðninguna hefðu verið til staðar.

Mælist til leitað verði leiða til að rétta hlut viðkomandi

Í ljósi þess hvernig staðið var að ákvörðun um afturköllunina taldi umboðsmaður einnig tilefni til að fjalla um málsmeðferð sveitarfélagsins.

Degi eftir munnlega ráðningu fékk konan þær upplýsingar að bærinn teldi hana ekki uppfylla menntunarskilyrði auglýsingarinnar. Bærinn veitti henni í kjölfarið engan frest eða ráðrými til þess að mótmæla ákvörðuninni. Þá hefði átt að veita frest til að kynna sér gögn og tjá sig um málið áður en ráðning annars aðila var ákveðin. Því telur umboðsmaður Alþingis að þessi málsmeðferð Akureyrarbæjar hafi ekki verið í samræmi við rannsóknar- og andmælareglu stjórnsýslulaga.

Mæltist umboðsmaður til þess við Akureyrarbæ að leitað yrði leiða til að rétta hlut viðkomandi. Að öðru leyti yrði það að vera verkefni dómstóla, ef til kæmi, að meta réttaráhrif framangreindra annmarka á málinu. Jafnframt var mælst til þess að bærinn tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

Á heimasíðu Umboðsmanns Alþingis er fjallað ítarlegra um málið.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó