NTC

Júlí Heiðar spenntur fyrir því að búa á Akureyri næstu mánuði

Júlí Heiðar spenntur fyrir því að búa á Akureyri næstu mánuði

Leikarinn Júlí Heiðar Halldórsson leikur Melcior í verðlaunasöngleiknum Vorið vaknar sem Leikfélag Akureyrar setur upp í Samkomuhúsinu í janúar.

Júlí Heiðar útskrifaðist sem leikari frá Listaháskóla Íslands árið 2018. Hann lék til að mynda í kvikmyndinni Webcam og hefur tekið þátt í uppfærslum Borgar- og Þjóðleikhússins. Júlí sér auk þess um fræðsluþættina KLINK sem sýndir eru á Rúv Núll. Þættirnir fjalla um fjármál og eru ætlaðir ungu fólki.

Sjá einnig: Edda Björg í Vorið vaknar

Júlí Heiðar er spenntur að koma til Akureyrar og leika í Samkomuhúsinu. „Það er geggjað að vera kominn norður. Ég hef alltaf kunnað vel við mig á Akureyri og hlakka ég mikið til að búa hérna næstu mánuðina. Það er líka æðislegt að fá að koma fram hjá Leikfélagi Akureyrar í frábæru verki með öllu þessu hæfileikaríka samstarfsfólki,“ segir Júlí Heiðar.

Vorið vaknar fjallar um afturhaldssamt og þröngsýnt samfélag 19. aldar. Vinunum Melchior, Moritz og Wendlu gengur misvel að fóta sig í harðneskjulegum heimi fullorðna fólksins og verða ýmist fórnarlömb eða sigurvegarar. Vorið vaknar fjallar um fyrstu kynlífsreynsluna, skólakerfið, kvíða og frelsisþrá þar sem tilfinningum krakkanna er fundinn farvegur í melódískri rokktónlist sem endurspeglar þeirra innra líf. 

Uppfærsla söngleiksins á Broadway árið 2006 hlaut átta Tony verðlaun og þar á meðal sem besti nýi söngleikurinn. Uppsetningin vann þar að auki fjölda annarra verðlauna og tilnefninga og hefur farið sigurför um heiminn allar götur síðan. Vorið vaknar er nú sett upp í fyrsta sinn í atvinnuleikhúsi á Íslandi. Aðrir leikarar eru Ahd Tamini, Ari Orrason, Árni Beinteinn Árnason, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Eik Haraldsdóttir, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Rúnar Kristinn Rúnarsson, Viktoría Sigurðardóttir, Þorsteinn Bachmann og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir. Marta Nordal leikstýrir.

Sambíó

UMMÆLI