Einn var fluttur á bráðamóttöku eftir að eldur kom upp í fjölbýlishúsi við Brekkugötu á Akureyri á þriðja tímanum í dag. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði Akureyrar kviknaði í eldavél í kjallaraíbúð í fjögurra hæða fjölbýlishúsi við götuna. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, segir það mikla mildi að ekki hafi farið verr. Hann bætir við að Alexandra Guðlaugsdóttir, ung móðir á efstu hæð hússins, og dóttir hennar, hafi verið í mikilli hættu en náð að koma sér mjög fljótt út.
Alexandra segir í samtali við RÚV að hún hafi skyndilega fundið mikla brunalykt en hafi ekki séð nein ummerki elds í fyrstu. „Ég er efst upp þannig að það er enginn reykur kominn þangað. Svo hleyp ég niður og þá er komið fullt af reyk í íbúðina á neðri hæðinni,“ segir hún.
Hún segist hafa byrjað á því að banka á neðri hæðinni en þegar enginn hafi svarað hafi hún hlaupið upp og náð í dóttur sína og hlaupið út með hana. Viðtal við Alexöndru má sjá á vef RÚV með því að smella hér.
Allt er ónýtt í að minnsta þremur íbúðum hússins.