Akureyrska hljómsveitin Flammeus, sem í mars og apríl síðastliðnum vann til tveggja einstaklingsverðlauna í Músíktilraunum, gefur nú út lagið Smooth Talking Fibernæsta laugardag á Spotify og öðrum streymisveitum. Hljómsveitin hyggst flytja það ásamt efni af nýútgefinni fyrstu breiðskífu sinni The Yellow á Iceland Airwaves þann 6. nóvember.
Lagið var tekið upp live í Stúdíói Tónlistarskólans á Akureyri. Umfjöllunarefni þess kemur beint frá hjarta Tuma Hrannar-Pálmasonar (söngvara og bassaleikara bandsins), en hann býður hlustendum að átta sig á því, ellegar leggja sína eigin merkingu í lagið.
Þó hljómsveitin hafi upprunalega sett saman til að taka upp og gefa út plötuna The Yellow(samansafn laga eftir Tuma) eru strákarnir hvergi nærri hættir. Smooth Talking Fiber er orkumikið og grípandi lag sem leggst vel í tónleikagesti, og því er mikil spenna meðal hljómsveitarmeðlima að leyfa fólki að heyra stúdíóútgáfuna.
Í úrslitum Músíktilrauna í ár var Tumi valinn bassaleikari Músíktilrauna 2019 og Guðjón hljómborðsleikari Músíktilrauna 2019.
Hljómsveitin samanstendur af þeim Jóhannesi Stefánssyni (rafgítar), Guðjóni Jónssyni (hljómborð), Hafsteini Davíðssyni (trommur) og Tuma Hrannar-Pálmasyni (rafbassi). Þessir piltar eiga það allir sameiginlegt að hafa verið um hríð í Tónliskarskólanum á Akureyri, en það var einmitt í gegnum hann sem bandið varð til. Núna í haust fluttu þeir Jóhannes og Tumi til Reykjavíkur til að læra við LHÍ, en þó Hafsteinn og Guðjón séu eftir norðan heiða er nóg á döfinni hjá þeim félögum. Þeir koma fram á Iceland Airwaves þann 6. nóvember og eru þar fyrir utan með fleiri smáskífur í pokahorninu sem munu koma út í vetur.
Með því að smella hér er hægt að vista lagið fyrirfram á Spotify.
UMMÆLI