Myndlistamaðurinn Jónína Björg Helgadóttir heldur sína sjöttu einkasýningu, sem nefnist Orlof og opnar í listarýminu Kaktus á Akureyri föstudaginn 6. september.
,,Þetta er fyrsta einkasýningin mín í tæp tvö ár. Ég eignaðist barn síðasta haust og í byrjun hafði ég nægan tíma til að hugsa en minni tíma til að búa til verk. Nú er drengurinn að verða eins árs og verkin streyma út. Tímabilið eftir að hann fæddist var áhugavert, þar sem öll rútína kollvarpaðist og það þurfti að venjast nýjum hlutum á hverjum degi. Þá urðu til myndir í kollinum sem svo eru orðnar að fullunnum verkum núna.“
Verkin á sýningunni eru mjög fjölbreytt, þar er að finna olíumálverk, vatnslitaverk, blekverk og skúlptúra. Jónína Björg hefur starfað sem myndlistamaður síðan hún útskrifaðist úr Myndlistaskólanum á Akureyri árið 2014. Hún hefur sýnt á samsýningum bæði hérlendis og erlendis og er þetta sem fyrr segir hennar sjötta einkasýning. Verk hennar eru fígúratív og oft sjálfsævisöguleg, með konuna í fyrirrúmi. Litagleði einkennir verkin sem og ákveðinn húmor fyrir sjálfum sér.
Opnun er föstudaginn 6. september kl. 20. Allir velkomnir og léttar veitingar í boði. Sýningin er opin aðeins þessa einu helgi, laugardag og sunnudag kl. 13-17.
UMMÆLI