H&M og Eik fasteignafélag hf. kynna með gleði opnun H&M verslunar á Glerártorgi, Akureyri. Þetta er fjórða verslunin sem sænska fatamerkið opnar hér á landi en keðjan kom fyrst hingað til lands árið 2017. Verslunin á Glerártorgi verður sú fyrsta sem verður staðsett utan höfuðborgarsvæðisins.
Áætluð opnun er haustið 2020. ,,Við erum ótrúlega spennt að færa út kvíarnar og opna verslun fyrir utan höfuðborgarsvæðið og geta þannig boðið viðskiptavinum okkar á Norðurlandi tísku og gæði á hagkvæmasta verðinu, framleitt á sjálfbæran máta. ,,Við erum virkilega ánægð með veru okkar á landinu og verður H&M á Glerártorgi frábær viðbót við verslanir okkar á Íslandi,“ segir Dirk Roennefahrt framkvæmdarstjóri H&M á Íslandi og Noregi.
Verður um 1.300 fermetrar að stærð
Í fréttatilkynningu segir að H&M verslunin á Glerártorgi verður um 1.300 fermetrar að stærð, full af tísku og gæðum á hagkvæmu verði, framleitt með sjálfbærum hætti. H&M verslunin á Glerártorgi mun bjóða upp á breitt úrval af nýjustu stílum og trendum ásamt klassískri tísku. Í versluninni verður fáanlegur dömu- og herrafatnaður ásamt barnafatnaði og snyrtivörum.
,,Samningurinn við H&M er í samræmi við stefnu fasteignafélagsins Eikar um að styrkja Glerártorg. Vinsæl verslun á við H&M mun laða að sér enn stærri hóp af gestum, sem mun einnig hafa jákvæð áhrif á aðrar verslanir á Glerártorgi. Við erum afar stolt af því að geta boðið íbúum á Norðausturlandi upp á H&M verslun. Sterkara Glerártorg mun einnig styðja við Akureyri sem miðstöð verslunar og þjónustu á norðausturhluta landsins,“ segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags hf.
UMMÆLI