Rekstur Sjúkrahússins á Akureyri á árinu hefur verið krefjandi og þungur. Þetta kemur fram í pistli forstjórans Bjarna Jónassonar á vef sjúkrahússins.
Bjarni segir starfsemina mánuðina janúar til júlí hafa veirð keimlíka starfsemi fyrra árs. Vel hafi gengið að sinna þeim sjúklingum sem hafa komið á sjúkrahúsið. Færri hafi leitað á bráðamóttökuna en á fyrra ári en aukning sé í komum á dag- og göngudeildir.
“Reksturinn það sem af er ári hefur verið afar krefjandi og þungur. Munar þar mest um að greiðslur vegna yfirvinnu eru mun meiri en gert var ráð fyrir en einnig er kostnaður hjúkrunar- og lækningavara hærri. Tímamæld yfirvinna í klst. talið jókst um 16% frá árinu 2016 til 2018. Að óbreyttu stefnir í að tímamæld yfirvinna haldi áfram að aukast frá fyrra ári. Það er ljóst að ekki verður við slíkt búið áfram. Því verðum við öll að skoða hvað hægt er að gera til að snúa þessari þróun við. Það kann að kalla á aðra nálgun við okkar daglegu verkefni svo sem breytt vinnulag og breytta vinnuferla – straumlínunlagaðri. Ég trúi því að með samstilltu átaki þá takist að snúa þessari þróun við,“ skrifar Bjarni á vef sjúkrahússins.
UMMÆLI