Hópur ungra Þórsara sem tóku þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ um liðna helgi og keppti undir nafninu Þorpararnir gáfu 160 þúsund krónur í Minningarsjóð um Baldvin Rúnarsson í gær. Fjallað er um þetta fallega framtak á heimasíðu Þórs.
Krakkarnir söfnuðu peningnum með því að selja auglýsingar á búningana sína og merktu þá með nafni Baldvins Rúnarssonar, Bassi eins og hann var kallaður, og tölustöfunum 603. Þegar auglýsingunum var safnað og búningarnir græjaðir stóðu 160 þúsund krónur í afgang sem þau vildu endilega gefa til minningar um Baldvin heitinn.
Hópurinn Þorpararnir samanstendur af stelpum úr 4. flokki og strákum úr 5. flokki í knattspyrnu en þau afhentu styrkinn í gær. Nokkrir strákar úr hópnum afhentu Ragnheiði Jakobsdóttur, móður Baldvins, peningana og treyju að gjöf í félagsheimili Þórs í gær.
UMMÆLI