NTC

Tímamótasamningur um öldrunarþjónustu undirritaður á AkureyriFrá undirskriftinni á laugardaginn. F.v. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, María Heimisdóttir forstjóri Sjúkrartrygginga Íslands, Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri. Mynd: Kaffid.is/Jónatan.

Tímamótasamningur um öldrunarþjónustu undirritaður á Akureyri

Öldrunarheimili Akureyrar (ÖA) hafa undirritað samning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um rekstur og nýsköpunar- og þróunarverkefni í öldrunarþjónustu. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, og Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila, Akureyrar undirrituðu samninginn laugardaginn 29. júní sl. að viðstöddum gestum á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Að undirritun lokinni var hann staðfestur af Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráherra, og Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

Nýjar áherslur og breytt fyrirkomulag samninga

Um síðustu áramót rann út rammasamningur Sjúkratrygginga Íslands um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila sem gilt hafði frá 1. janúar 2016. Framkvæmdin fólst í því að rekstraraðilar dvalar- og hjúkrunarheimila sögðu sig inn á samninginn og skuldbundu sig þar með til að starfa á grundvelli hans og fá greitt á þeim grunni.

Með samningi SÍ og ÖA er gerður sérstakur samningur á milli aðila í stað eins samnings fyrir alla rekstraraðila líkt og áður. Eins og fram kemur í samningnum er meginmarkmiðið að skapa svigrúm til sveigjanleika í öldrunarþjónustu sem gefur meðal annars kost á tímabundnum úrræðum og breytilegum þjónustutíma eftir þörfum.

Nýsköpun í öldrunarþjónustu

Með samningnum er markaður rammi fyrir yfirstandandi nýsköpunar- og þróunarverkefni sem ætlað er að skapa svigrúm til að auka sveigjanleika í dagþjálfun og skammtímadvöl, með möguleikum á breytilegum þjónustutíma eftir þörfum notenda. Samningurinn er til tveggja ára með möguleika til framlengingar til tveggja ára sem ræðst af framvindu verkefnisins.

Heilbrigðisráðherra samþykkti í september 2018 þá ósk ÖA að setja af stað nýsköpunar og þróunarverkefnið og fól Sjúkratryggingum Íslands að gera samning við ÖA um verkefnið. Undirbúningur að verkefninu og hófst á liðnu hausti og nýtt verkefni og nýtt þjónustuform hóf síðan starfsemi í byrjun febrúar 2019, líkt og upphafleg áform gerðu ráð fyrir.

Verkefnið felst í að nýta fjárheimildir vegna tíu hjúkrunarrýma, sem nýtt voru til skammtíma-/hvíldarinnlagna, til að búa til dagdvalarrými með breytilegum opnunartíma, um kvöld og alla daga ársins, auk þess sem horft er til þess að geta mætt aðstæðum þjónustuþega þegar þörf er á sólarhringsdvöl til að mynda vegna veikinda aðstandenda eða einstaklingsins sjálfs. Þá felst einnig í verkefninu að innleiða ýmis mælitæki við þjónustumat, innleiða notkun á velferðartækni eins og kostur er og jafnframt að óháður aðili komi að mati og úttektum á ávinningi af þessari nýbreytni.

Samningurinn gerir ráð fyrir að framvinda og árangur verkefnisins verði metinn út frá faglegum og fjárhagslegum þáttum og út frá sjónarmiðum og reynslu notenda og fjölskyldna þeirra.

Með því að bjóða fjölbreyttari og meiri þjónustu yfir daginn fyrir fólk sem býr heima en þarf mikinn stuðning má draga úr og/eða seinka þörf fyrir innlögn á hjúkrunarheimili. „Það hefur lengi verið opinber stefna að styðja aldraða til að búa sem lengst á eigin heimili og langflestir vilja búa heima hjá sér eins lengi og kostur er. Þau nýmæli í öldrunarþjónustu sem ÖA hafa þróað og fá nú staðfestingu með þessum nýja samningi eru mikilvægt innlegg í framkvæmd þessarar stefnu og verða vonandi öðrum fordæmi og fyrirmynd“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við undirritun samningsins á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI