Menningarfélag Akureyrar hlýtur sjö tilnefningar til Grímunnar – íslensku sviðslistaverðlaunanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MAk en tilnefningarnar voru tilkynntar í gærkvöldi. Um er að ræða besta árangur Menningarfélags Akureyrar frá upphafi.
Söngleikurinn Kabarett, í uppfærslu Leikfélags Akureyrar, hlýtur alls fimm tilnefningar. Þar af fær Auður Ösp Guðmundsdóttir tvær tilnefningar, fyrir Búninga ársins og Leikmynd ársins og Lee Proud fyrir Dans- og sviðshreyfingar. Leikhússtjóri, Marta Nordal, fær tilnefningu í flokknum Leikstjóri ársins og sýningin Kabarett er tilnefnd sem Sýning ársins.
Fjölskyldusöngleikurinn Gallsteinar afa Gissa, einnig í uppsetningu Leikfélags Akureyrar, fær tvær tilnefningar, í flokknum Barnasýning ársins og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson fær tilnefningu fyrir tónlistina í flokknum Tónlist ársins.
Grímuverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn miðvikudaginn 12. júní.
UMMÆLI