NTC

Jóhann Thorarensen og Matjurtagarðar Akureyrar verðlaunaðirSigrún Á. Héðinsdóttir og Jóhann Thorarensen við athöfnina. Mynd: Guðríður Helgadóttir

Jóhann Thorarensen og Matjurtagarðar Akureyrar verðlaunaðir

Mörg þúsund manns komu saman 26. apríl sl. við Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi þegar 80 ára garðyrkjumenntun í landinu var fagnað. Forseti Íslands og Menntamálaráðherra mættu á athöfnina til að veita Garðyrkjuverðlaunin 2019.
 
Hvatningaverðlaun garðyrkjunnar fengu matjurtagarðar Akureyrabæjar og Jóhann Thorarensen, garðyrkjufræðingur, sem hefur yfirumsjón með görðunum. Jóhann er upphafsmaður matjurtagarða Akureyrarbæjar en hann hefur lengi haft á matjurtaræktun fyrir almenning. Það var í kjölfar fjármálahrunsins sem Jóhann sótti fund með formanni bæjarráðs Akureyrar og bar upp hugmynd sína um að gera matjurtagarð en hann sækir sína fyrirmynd í matjurtagarða í Danmörku sem kallast þar Kolonihaver. Framkvæmdin er með þeim hætti að þegar görðunum hefur verið úthlutað fær fólk fræðslu í sáningu og meðferð plantna. Allir ræktendur fá fræ, spíraðar kartöflur og forræktaðar kálplöntur. Þetta segir Jóhann í samtali við fréttastofu Rúv.

Vel var tekið í þá hugmynd og strax vorið eftir voru garðarnir auglýstir. Upphaflega var gert ráð fyrir 50-100 görðum en eftirsóknin var svo mikil að fyrsta sumarið voru leigðir út 200 garðar. Árið eftir voru garðarnir orðnir 300. Í dag eru 250 garðar í leigu.

Matjurtagarðarnir heyra undir Ræktunarstöð Akureyrarbæjar og segir Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari að Reykjum, að Akureyrarbær sé algjörlega til fyrirmyndar. Það sé mat Landbúnaðarháskóla Íslands að fræðslan og aðstoðin sem þátttakendur fái á ræktunartímanum séu lykillinn að velgengni þeirra. Með verðlaununum vilji skólinn hampa þeim sem koma garðyrkju á framfæri, séu að gera góða hluti og öðrum til eftirbreytni. Margir hafi í þessu samhengi bent á matjurtagarðana og þar sé Jóhann lykilmaður. Hann sé því vel að verðlaununum kominn. Um leið og fólk fer að rækta eigið grænmeti aukist neysla á því. Þá sé þetta frábær leið fyrir fjölskylduna að eyða saman tíma utandyra.

Sambíó

UMMÆLI